Meðferð á máli kúrdísks flóttamanns

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:41:31 (505)

1999-10-13 15:41:31# 125. lþ. 8.94 fundur 64#B meðferð á máli kúrdísks flóttamanns# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Í byrjun þessa mánaðar kom hingað til lands maður að nafni Marewan Mustafa Ali, sem kveðst vera Kúrdi, og óskaði eftir því við íslensk yfirvöld að hann fengi réttarstöðu flóttamanns og sótti um hæli sem slíkur. Að sögn var hann að flýja ofsóknir og hótanir í Kúrdistan þar sem hann telur sig hafa ástæðu til að óttast um líf sitt. Hann hefur gefið það út í skýrslutöku hjá lögreglu að hann telji að hann muni ekki lifa það af neyðist hann til þess að snúa aftur til heimalands síns, Íraks. Við komuna til landsins gaf hann sig fram hjá Amnesty sem kom honum í samband við Rauða krossinn. Rauði kross Íslands útvegaði honum gistingu á gistiheimili í samræmi við viðtekna venju og nýgerðan samning Rauða krossins við dómsmrn. Rauði krossinn hafði samband við útlendingaeftirlitið sem gerði grein fyrir því að lögreglan óskaði eftir því að taka skýrslu af manninum. Allt er þetta venju samkvæmt enda viðtekinn vani að sá sem óski hælis sem flóttamaður dveljist í umsjá Rauða krossins óháð því hvort þeir hafi haft meðferðis skilríki eður ei.

Í stað þess að Marewan Mustafa Ali yrði áfram í umsjá Rauða krossins var hann handtekinn og settur í fangageymslu. Daginn eftir var hann yfirheyrður og bókaður grunaður, án þess að honum væri gerð grein fyrir því hvaða refsiverða verknað hann væri sakaður um. Í kjölfarið var krafist gæsluvarðhalds þar sem byggt var á því að ekki væri hægt að tryggja návist hans á annan hátt. En að gefnu tilefni, virðulegi forseti, er rétt að taka fram að maðurinn, sem er skilríkjalaus og allslaus, svaraði aðspurður fyrir dómi hvort hann myndi flýja yrði hann settur í gæslu með þessum orðum: ,,Hvert ætti ég að fara?``

Héraðsdómur féllst síðan á kröfu lögreglunnar um gæslu á miðvikudaginn með eftirfarandi rökum: ,,Fyrir dóminum hafði maðurinn gefið óljós svör hvernig hann hafi komist til landsins og hvaðan, svo og hvað hann ætlist fyrir. Hann kveðst hafa eyðilagt vegabréf sitt og farseðil við komuna til landsins. Hann er peningalaus og hefur engan ákveðinn stað til að dveljast á.``

Í framhaldi af úrskurði Héraðsdóms var maðurinn vistaður meðal dæmdra sakamanna á Litla-Hrauni þrátt fyrir að slík vistun sé í hróplegu ósamræmi við reglur þær sem flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út á grundvelli alþjóðasamnings sem Ísland hefur fullgilt um réttarstöðu flóttamanna. Haldi yfirvöld því fram að önnur vistun sé ekki tæk þá eru íslensk yfirvöld að lýsa því yfir að þau séu ófær um að útvega mannúðlega gæsluvist í tilvikum sem þessum.

Mér virðist því sem íslensk yfirvöld hafi þverbrotið viðurkenndar reglur um mannréttindi og meðferð flóttamanna. Meðferðin sem þessi maður fékk hjá yfirvöldum bendir til þess að hann hafi frá upphafi verið meðhöndlaður sem glæpamaður þrátt fyrir að honum hafi aldrei verið tilkynnt um að grunur léki á því að hann hafi framið refsiverðan verknað. Þessi málsmeðferð er ámælisverð og í andstöðu við þá grundvallarreglu að enginn teljist sekur fyrr en sekt hans hafi verið sönnuð.

Í þessu máli var horfið frá hefðbundnum starfsvenjum í málum af þessum toga. Hverju það sætir geri ég mér ekki grein fyrir en á svipuðum tíma var að hefjast lokuð ráðstefna útvalinna kvenna um konur og lýðræði.

Það eru ekki viðhlítandi rök fyrir vistun í fangageymslum eða gæsluvarðhaldi að flóttamaður, sem leitar hér hælis, geti ekki sýnt fram á hver hann er. Það er viðtekin venja íslenskra yfirvalda að senda einstaklinga sem hingað koma án skilríkja aftur til þess lands sem þeir komu komu frá. Það er því eðlilegt að hann vilji ekki upplýsa um hvaðan hann kom því vitað er að þangað kom hann frá Tyrklandi.

[15:45]

Þá er einnig vitað að þrátt fyrir að ríki eins og Írak, Íran, Tyrkland og Sýrland liggi að öllu jöfnu ekki í faðmlögum þá skiptast þau á upplýsingum um Kúrda. Því getur því vart verið fýsilegt fyrir viðkomandi að vera sendur þangað.

Virðulegi forseti. Ég þekki ekki sögu þessa manns og veit því ekki frekar en aðrir hvort saga hans er sönn eður ei. Hitt veit ég að ef við ætlum að halda hér uppi réttarríki þá getum við ekki sætt okkur við svona vinnubrögð af hálfu stjórnvalda. Við verðum að virða þær meginreglur sem við höfum undirgengist í samfélagi þjóðanna og taka á okkur þær skyldur sem á okkar herðar eru lagðar að því er varðar vernd einstaklinga og mannréttindi.

Sem betur fer, virðulegi forseti, var hægt að vísa þessum gæsluvarðhaldsúrskurði til Hæstaréttar sem á mánudaginn kvað upp úr um að ekki væri lengur þörf á að hafa manninn í gæslu og var honum því sleppt.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar getum ekki leyft okkur þann munað að mæra í skálarræðum mannréttindi og lýðræði en haga okkur síðan á þennan hátt. Mér er sagt að ástæðan fyrir því að maðurinn hafi komið hingað í upphafi hafi verið það orðspor sem af landinu fer í lýðræðis- og mannréttindamálum. Mér er jafnframt sagt að í dag sé hann þungt hugsi yfir ákvörðun sinni. Við höfum orðspor að verja.

Virðulegi forseti. Ég beini því til hæstv. dómsmrh. að hún geri þingheimi grein fyrir því hvernig stóð á að þetta mál var unnið á þann veg sem raun ber vitni og hvort sérstakar ástæður liggi að baki málsmeðferðinni. Enn fremur beini ég því til hæstv. dómsmrh. að rannsókn á máli flóttamannsins sem nú er fram undan beinist fyrst og fremst að því að kanna hvort hann sé sá sem hann segist vera en lúti ekki að því að upplýsa hvaðan hann kom eða hvernig. Slík málsmeðferð yrði yfirvöldum til sóma í því máli sem þau hafa nú komið sér í.