Meðferð á máli kúrdísks flóttamanns

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 16:02:07 (511)

1999-10-13 16:02:07# 125. lþ. 8.94 fundur 64#B meðferð á máli kúrdísks flóttamanns# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[16:02]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil ítreka að hér er ekki um einfalt mál að ræða þar sem spurningin snýst um hvort einstaklingur eigi rétt á hæli hér á landi sem pólitískur flóttamaður. Um er að ræða rannsókn á skipulögðum, ólöglegum flutningi einstaklings frá Tyrklandi til Íslands þar sem öllum brögðum var beitt og þau verður að rannsaka til hlítar. (GÁS: Er þetta afbrotarannsókn?) Á þessi sjónarmið féllst héraðsdómur.

Það er ekki sjálfgefið að Ísland verði móttökuland fyrir þá glæpahringi sem taka að sér að smygla fólki frá vanþróuðum ríkjum til hinna þróaðri og það er sérstakt athugunarefni lögreglunnar hvort slíkir hringir hafi e.t.v. komið sér upp samverkafólki hér á landi. (LB: Var litið á ... frá upphafi?)

Ég vil að lokum minnast á það að lögin um eftirlit með útlendingum eru komin til ára sinna og skortir skýrar verklagsreglur um margt. Því hefur verið unnið að endurskoðun þeirra og var frv. til nýrra laga lagt fram á hinu háa Alþingi til kynningar á sl. vori. (Gripið fram í.) Ég stefni að því að það frv. endurskoðað verði lagt fram á þessu þingi.

Ég vil einnig nefna, eins og hér hefur komið fram, að ég hef nýlega gengið frá samningi við Rauða kross Íslands um að Rauði krossin sjái tímabundið um umönnun fólks sem hingað leitar með beiðni um hæli sem pólitískir flóttamenn og gildir það meðan beðið er úrskurðar um þá beiðni.

Herra forseti. Að lokum þetta. Ég fullyrði að Íslendingar hafa staðið vel að verki við móttöku pólitískra flóttamanna og gæta réttarstöðu þeirra í samræmi við nútímamannréttindi. (GÁS: Þeir eru settir í steininn.)