Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 10:53:31 (521)

1999-10-14 10:53:31# 125. lþ. 9.3 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997# (munnl. skýrsla), GHall
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[10:53]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni um þakkir til umboðsmanns Alþingis fyrir þessa skýrslu. Hún er allrar athygli verð. En ég hef áður komið upp vegna umræðu um skýrslu umboðsmanns Alþingis, einkum vegna þess hve svör berast oftar en ekki seint og illa frá stjórnvöldum til þeirra er leita til þessa embættis.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna til þess sem umboðsmaður kemur inn á í skýrslu sinni á bls. 9 undir tölustafnum 4 þar sem hann segir svo, með leyfi forseta:

,,Í starfi mínu hef ég orðið þess var að stjórnvöld sjá stundum ástæðu til að bíða með afgreiðslu erinda þar til ný lög eða nýjar reglugerðir hafa verið settar. Dæmi eru um að beðið hafi verið með afgreiðslu erinda almennings svo árum skipti þar sem von væri á nýjum reglum sem stjórnvöld töldu ,,heppilegt`` að bíða eftir.

Þar sem slík viðbrögð stjórnvalda eru ekki bundin við eitt svið stjórnsýslunnar tel ég ástæðu til að minna almennt á eftirfarandi sjónarmið:

Borgararnir eiga rétt á því, að stjórnvöld leysi úr málum þeirra svo fljótt sem unnt er á grundvelli þeirra laga og stjórnsýslufyrirmæla, sem í gildi eru, þegar þeir bera fram erindi sín við stjórnvöld, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Við úrlausn mála er það frumskylda stjórnvalda samkvæmt íslenskum stjórnlögum að starfa á grundvelli þeirra réttarheimilda sem í gildi eru á hverjum tíma og sjá um framkvæmd þeirra. Ég tel tilefni til að minna á að óréttlætt synjun um afgreiðslu mála getur leitt til bótaskyldu hins opinbera, svo og stjórnsýsluviðurlaga eða í sumum tilvikum jafnvel refsiviðurlaga fyrir opinbera starfsmenn.``

Mér finnst það nokkuð alvarlegt þegar umboðsmaður Alþingis telur ástæðu til að setja þetta á prent sem ég las. Ég leiði þá hugann að því hvort ekki sé eðlilegt og nauðsynlegt --- og beini ég enn einu sinni orðum mínum til hv. allshn., að öðrum kosti tel ég ástæðu til að flytja málið sjálfur --- að setja það mál upp að stjórnsýslu beri skylda til að svara innan 6--8 mánaða, ekki síðar, þegar umboðsmaður Alþingis leitar til stjórnsýslunnar um svör við málum sem eru í vinnslu hjá honum. Þessar athugasemdir hafa nánast verið gerðar núna í ein 6--7 ár. Það vekur furðu að í lýðræðisríki sem við teljum okkur til á Íslandi skuli slíkir hlutir gerast enn í dag.

Það var þessi athugasemd, virðulegi forseti, sem ég vildi koma hér á framfæri og tel allrar athygli verða með tilvísan til þess sem skýrslurnar á árunum áður hafa sýnt fram á og enn er endurtekið svo kröftuglega sem raun ber vitni um af hálfu umboðsmanns Alþingis.