Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 10:57:15 (522)

1999-10-14 10:57:15# 125. lþ. 9.3 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[10:57]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir mikilli ánægju með starf embættis umboðsmanns Alþingis. Ég tel að afar vel hafi tekist til um það embætti frá því að það var sett á laggirnar árið 1988. Ljóst er að það hefur unnið sér traust bæði almennings og einnig innan stjórnsýslunnar, því eins og kom fram í máli hæstv. forseta Alþingis um könnun sem embættið lét gera á afdrifum 2.000 fyrstu málanna sem komu til kasta embættisins að í 86,5% tilfella var farið að tilmælum umboðsmanns, einvörðungu í 5% tilfella var ekki farið að þeim en í 4,5% tilvika komu ekki fram viðbrögð. Auðvitað hefði maður viljað sjá það svo að í öllum tilvikum væri farið að tilmælum umboðsmanns Alþingis en forsenda þess að tiltrú skapist eins og reyndar hefur gerst í þessu tilviki er sú að umboðsmaður Alþingis geti áfram unnið á mjög vandaðan hátt að umfjöllun um mál.

Ef eitthvað má að þessu embætti finna, þá er það fyrst og fremst langur afgreiðslutími. Það er allt of langur afgreiðslutími á málum og nú sjáum við það í umræðum um skýrsluna að hún hefði að sjálfsögðu átt að fara fram miklu fyrr. Að vísu kom skýrslan út í fyrra en þetta er skýrsla fyrir árið 1997. Skýrslan fyrir árið 1998 er enn ekki komin fram. Ég vil spyrja hæstv. forseta Alþingis hverju þetta sæti, hvort hér sé um að kenna mannaflaskorti hjá embættinu. Það eru fimm menn sem starfa hjá embætti umboðsmanns Alþingis og ég vil fá upplýsingar um það frá hæstv. forseta hvernig að embættinu er búið hvað varðar tölvukost og mannafla. Eru fjárveitignar Alþingis í samræmi við það sem embættið fór fram á? Ég vil lýsa yfir þeirri afstöðu minni og okkar innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að við viljum leggja okkar af mörkum til að styrkja þetta embætti því að það er lýðræðinu mikilvægt að það starfi sem allra best.