Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 11:01:19 (523)

1999-10-14 11:01:19# 125. lþ. 9.3 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[11:01]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Að gefnu tilefni í ræðu hv. 13. þm. Reykv. vil ég taka fram að eins og fjárlagatillögur Alþingis liggja fyrir er gert ráð fyrir því að ráða lögfræðing að embættinu og með öðrum hætti koma til móts við óskir umboðsmanns Alþingis og það á að vera fyrir því séð að afgreiðslutími á málum styttist. Ég vona að reynslan muni leiða í ljós að svo verði, að öðrum kosti verður að grípa til frekari ráðstafana.

Ég vil í annan stað segja vegna þess að skýrslan hefur ekki verið lögð fram fyrir árið 1998 að það stendur mjög til bóta. Búist er við að hún komi úr prentun í næsta mánuði en vegna þess að undirbúningur er með öðrum hætti af því að breytingar verða á formi skýrslunnar og hún síðan birt á heimasíðu embættisins hafa orðið nokkrar tafir en þær eru af því góða að því leyti að sú vinna sem nú er verið að leggja í mun opna skýrslu umboðsmanns fyrir fleirum en ella mundi þegar hún kemur á skjáinn.