Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 11:03:05 (524)

1999-10-14 11:03:05# 125. lþ. 9.3 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[11:03]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þessi skýrsla er mikil að vöxtum og er þykk bók en það er athyglisvert að í skýrslunni er þó einungis að finna einn fimmta hluta þeirra mála sem afgreidd voru hjá embætti umboðsmanns Alþingis á árinu 1997. Þau mál sem eru í skýrslunni eru valin með tilliti til eðlis þeirra eins og segir í bréfi umboðsmanns og tekin með tilliti til þess að þau hafa almenna þýðingu fyrir starf umboðsmanns og starfshætti í stjórnsýslu.

Auðvitað er það svo að magn hins skrifaða máls segir ekki allt. En það er athyglisvert hversu mörg mál eru tekin fyrir hjá umboðsmanni árið 1997, skráð 360 mál, og eins og fram hefur komið og einnig í máli forseta Alþingis eru bara tekin fyrir í skýrslunni þau mál sem berast skriflega, ekki öll þau fjölmörgu munnlegu erindi sem koma inn til embættisins. Þetta segir okkur hve dýrmætt það er að vera með embætti af þessum toga í ríki sem kennir sig við lýðræði og vill hafa lýðræði í heiðri.

Það er líka athyglivert að stjórnvöld drógu lengi í efa úrskurði umboðsmanns en þau hafa smám saman sæst á að umboðsmaður hafi í mörgum og kannski flestum tilfellum lög að mæla og meðtaka úrskurði hans og það veldur því að breytingar verða á. Engin leið er fyrir okkur að vita hvort sú aukning sem hefur orðið á meðferð mála, formlegum erindum hjá umboðsmanni, sé vegna þess að fólk er betur upplýst og leitar í auknum mæli réttar síns eða hvort það er vegna þess að stjórnvöld gæta sín ekki nægilega að mæta nýjum tímum og fara nákvæmlega að lögum í ýmsum þeim efnum sem eru gagnrýnd í skýrslunni.

Mig langar að nefna einn þátt sem hefur oft borið á góma á Alþingi og verið fluttar tillögur um, þ.e. þann sem lýtur að þjónustugjöldum. Hér hafa verið fluttar tillögur um að þjónustugjöld skuli í öllum tilfellum eingöngu standa fyrir þeim útlagða kostnaði sem stjórnvöld verða fyrir en ekki að vera tekjustofn eða skattstofn eins og stundum hefur verið bent á.

Í skýrslunni er bent á dæmi um valdaframsal til sveitarstjórna varðandi ákvarðanir um sérstök álögð gjöld og hve mikilvægt það sé að sveitarstjórnir fari að réttarreglum og lagasjónarmiðum með þjónustugjöld. Auðvitað vaknar þá spurning um hvort stjórnvöld gæti sín almennt á því að fara að lögum um þjónustugjöld vegna þess að svo oft er ágreiningur um álögð gjöld og hvort þau séu réttmæt.

Virðulegi forseti. Þessi skýrsla fyrir árið 1997 er eins og ég hef áður sagt mikil að vöxtum. Það er alls ekki svo að ég hafi lesið öll dæmin hér, en mig langar að nefna eitt tiltekið dæmi þar sem umboðsmaður gerði athugasemdir við gjaldtöku vegna kostnaðar við þjónustu á skoðunarstofum og vildi að þeim yrði beint að stofunum en ekki vinnsluleyfishöfum. Í þessu sérstaka tilfelli þráaðist ráðuneyti sjávarútvegsmála við og taldi þetta rangar aðfinnslur og vildi ekki gera breytingar á gjöldum sínum en eftir talsverð bréfaskrif og umfjöllun um málið var það þó svo að réttmætt þótti að fella niður þessi gjöld af vinnsluskipum öðrum en fullvinnsluskipum. Bara slíkt dæmi segir okkur hve mikilvægt það er að mál eru tekin fyrir og ekki er látið staðar numið við að fella álit og beina því til stjórnvalda, jafnvel í þeim tilfellum þar sem stjórnvöld segja, þetta er réttmætt hjá okkur og við förum ekki að þessu áliti, þá endar það þó þannig í þessu tilfelli að eftir skrif og umfjöllun gerir Fiskistofa sér grein fyrir því að réttmætt sé að fella niður þjónustugjöld af vinnsluskipunum sem eru ekki fullvinnsluskip og beinir því til ráðuneytis og þetta mál er til lykta leitt.

Ég er ekki að velja þetta mál af því að það hafi sérstaka þýðingu heldur tek ég það sem dæmi um að embættið fer af stað með mál og vinnur það áfram þar til niðurstaða næst.

Þegar við tökum skýrslu sem þessa til umræðu er allsendis ófullnægjandi að þingmenn komi hér, jafnvel þeir sem hafa lesið alla skýrsluna og hvert einasta mál, og vilji taka þau mál til umfjöllunar og ræða eðli þeirra eða einstök mál --- til þess er í raun og veru þingfundur, ekki vettvangur. Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til forseta Alþingis hvort hann muni á næstunni skoða þær breytingar á þingsköpum sem hafa legið fyrir og lágu fyrir á vordögum og mikill vilji var til að gera breytingar á. Þar var m.a. að finna tillögur um breytingar á meðferð skýrslna, að í stað þess að þær komi bara þannig á dagskrá þingsins og menn ræði þær opið, og ég fullyrði takmarkað, þá mundi sérstök stjórnlaganefnd taka skýrslur bæði umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar til umfjöllunar og skoðunar og koma með einhvers konar niðurstöðu eða álit. Það væri allt annars eðlis fyrir þingið að vinna þannig að skýrslunum. Það væru vönduð vinnubrögð og ég fullyrði að það væri til enn meiri árangurs varðandi umbætur í stjórnsýslu okkar.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að auk skýrslu umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar ætti slík stjórnlaganefnd að taka fyrir skýrslu umboðsmanns barna. Það hlýtur að vera þannig að við, löggjafinn, viljum sem vandaðsta meðferð þeirra embætta sem heyra undir þingið eða tengjast þinginu eins og embætti umboðsmanns barna sem er hjá framkvæmdarvaldinu og reyna að vinna með þau mál eða eðli mála á einhvern þann hátt að viðunandi sé.

Herra forseti. Ég hef fyrst og fremst drepið á hversu mikilvægt það er að umboðsmaður Alþingis gæti réttarstöðu einstaklinga eða lögaðila og að þeim 354 kvörtunum, sem eru teknar fyrir í skýrslunni, koma 381 einstaklingur og 27 lögaðilar. Þetta segir okkur hversu dýrmæt þessi leið er fyrir einstakling sem telur á sér brotið. Auðvitað er það svo að einstaklingar sem leita til umboðsmanns Alþingis hafa áður verið búnir að fara píslargöngu sína um kerfið eins og fólk tekur gjarnan til orða. Það er ómetanlegt að fólk geti farið á stað eins og þennan til umboðsmanns Alþingis og vitað að ef formlegt erindi er tekið fyrir, þá endar það með áliti umboðsmanns sem þá setur fram álit um réttarstöðu þess aðila sem að málinu hefur komið sem og lögaðila. En ég fullyrði það að sérstaklega sé þetta embætti mikilvægt fyrir einstaklinginn.

Ég hef aðeins farið orðum um mikilvægi embættisins. Ég hef nefnt þjónustugjöldin sem ég hefði talið að Alþingi þyrfti að skoða miklu betur til að átta sig á því hvort alls staðar sé farið að lögum, bæði hjá ríki og sveitarfélögum varðandi þjónustugjöldin, og rætt meðferð skýrslunnar og að við þurfum að breyta því. Að lokum vil ég nefna að umboðsmaður Alþingis, sem nú starfar, er settur í embætti. Það er væntanlega um áramót sem á að skipa í þetta embætti og væri vel við hæfi að forseti mundi fara örfáum orðum um hvernig málsmeðferð verður í því ferli.

Annað vil ég ekki taka fyrir að þessu sinni, herra forseti, en mundi svo gjarnan vilja sjá að við hefðum möguleika á að fjalla betur um þessar mikilvægu skýrslur.