Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 11:15:27 (527)

1999-10-14 11:15:27# 125. lþ. 9.3 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997# (munnl. skýrsla), LB
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[11:15]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá skýrslu sem liggur á borðum okkar og þakka fyrir störf umboðsmanns sem eru að öllu jöfnu til mikilla heilla fyrir samfélagið og hafa verið öll þau ár sem hann hefur starfað.

Virðulegi forseti. Hlutverk umboðsmanns er ekki það að hann geti kveðið upp dóma eða úrskurði heldur byggist starf hans fyrst og fremst á því að svo mikil virðing sé borin fyrir störfum hans af stjórnvöldum að stjórnvöld fari eftir þeim álitum og úrskurðum sem hann kemst að. Á því byggjast fyrst og fremst þau áhrif sem umboðsmaður hefur á stjórnvöld. Ég get tekið undir það með flestum sem hér hafa talað að áhrif hans hafa verið mikil og góð á íslenska stjórnsýslu allt frá því að til embættisins var stofnað.

Það eru nokkur atriði, virðulegi forseti, sem ég vildi nefna. Í fyrsta lagi held ég að það sé mjög þarft verk að umboðsmaður komi úrskurðum sínum og álitum á heimasíðu og færi þetta í nútímalegra horf en nú er og menn hafi þar aðgang. Hugsanlega mætti velta þeirri hugmynd upp að umboðsmaður mundi skila frekar einhvers konar útdrætti til Alþingis og Alþingi mundi síðan fjalla um þann útdrátt í stað þess að skila jafnstórri skýrslu og raun ber vitni. Það gæti jafnvel orðið markvissari umfjöllun en nú er því að um mjög merk er mál að ræða.

Í öðru lagi vil ég nefna, virðulegi forseti, að ég tel að mun skynsamlegra væri og heppilegra að skýrslan fengi vandaðri meðferð í nefnd í stað þess að taka hana til umræðu hér, jafnvel þannig að einhver tiltekin nefnd sem með skýrsluna færi, hvort sem það væri forsn., allshn. eða einhver ný nefnd samkvæmt þingsköpum, ályktaði þá jafnvel í einhverjum málum og hvetti til þess að stjórnvöld tækju upp og færu eftir því sem umboðsmaður hefði komist að.

Ég held að við flest sem þekkjum orðið þokkalega til stjórnsýslunnar gerum okkur grein fyrir því að á undanförnum tíu árum eða svo hafa orðið gríðarlega miklar breytingar á stjórnsýslunni og við kannski komist út úr því fari sem sumir stjórnsýslufræðingar vilja meina að Jónas frá Hriflu hafi komið íslenskri stjórnsýslu í með því að taka upp og vera að einhverju leyti frumkvöðull að þeim geðþóttaákvörðunum sem tíðkuðust í stjórnsýslunni í marga áratugi þar til að við fórum að nálgast slíka umræðu á annan hátt. Ég held að kennsla til að mynda í stjórnsýslufræðum í háskólanum hafi tekið miklum stakkaskiptum undanfarin 10--15 ár til mikilla bóta. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það skilar sér síðan í starfi umboðsmanns. Enda vitnar sá fjöldi mála sem umboðsmaður fjallar um um áhuga manna og hversu mikilvægt það er að þetta embætti er til.

Virðulegi forseti. Það er einnig annað sem ég vildi nefna sérstaklega vegna viðbragða forseta Alþingis áðan við fyrirspurn frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, þar sem hann spurði hvort ástæðan fyrir því að mál mundu dragast jafnlengi og raun ber vitni, þ.e. í þeim tilvikum þegar ekki er um það að ræða að stjórnvöld skili seint og illa frá sér svörum, heldur hitt hvort embættið sem slíkt væri undirmannað, að þá held ég að sé vert að minna á að tillögur sem komu við undirbúning fjárlagagerðar lögðu til að bætt yrði við einum lögfræðingi hjá umboðsmanni Alþingis. En miðað við það fjárlagafrv. sem nú liggur fyrir virðist vera sem fallið hafi verið frá þeirri fyrirætlan.

Ég vil beina því til hæstv. forseta Alþingis hvort hann muni beita sér fyrir því að þær hugmyndir um að bæta við a.m.k. einum lögfræðingi hjá umboðsmanni Alþingis nái fram að ganga áður en fjárlagafrv. verður samþykkt á hinu háa Alþingi, væntanlega rétt fyrir áramótin.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka þakklæti til umboðsmanns Alþingis og þeirra starfsmanna sem hjá honum starfa. Ég segi enn og aftur að þetta embætti hefur fært íslenska stjórnsýslu mörg skref fram á við frá því að það var tekið upp og embættið byggir fyrst og fremst á því að það njóti virðingar í þeim störfum sem það vinnur. Þess vegna hefur embættið engin önnur vopn en þau rök sem það ber fram þegar kvörtunum er beint til embættisins.

Ég held að íslensk stjórnvöld, þó að þau hafi að mörgu leyti tekið vel í niðurstöður og álit embættisins, megi herða enn á þannig að þetta embætti verði nánast yfir gagnrýni hafið, því það hefur sýnt það í störfum sínum í þeim úrskurðum, álitum og þeim röksemdum sem embættið hefur sett fram að það virkilega stendur undir því að stjórnvöld taki mjög alvarlega það sem frá umboðsmanni kemur. Enda má nefna það, og ég held að ég fari rétt með, að öllum þeim málum sem farið hefur verið í fyrir dómstólum á grundvelli álits eða úrskurðar umboðsmanns Alþingis hefur lyktað hjá dómstólum á sama hátt og umboðsmaður hafði áður komist að.