Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 11:29:36 (531)

1999-10-14 11:29:36# 125. lþ. 9.3 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[11:29]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Aðeins fáein orð í þessa umræðu sem hefur verið ágæt. Þau snerta hugsanlegt breytt fyrirkomulag á skýrslugerðinni til Alþingis. Ég held að þetta þurfi að skoða í ljósi markmiða til hvers á að nota þessa skýrslu.

[11:30]

Það hefur komið fram að í allflestum tilvikum er farið að tilmælum umboðsmanns Alþingis, annað eru undantekningar. Ég hef þá trú að enda þótt hér sé ekki á ferðinni dómstóll, þá hafi orð umboðsmanns Alþingis fordæmisgildi og gagnist einstaklingunum, borgurunum og einnig stjórnsýslunni. Þessum aðilum þarf því að vera þessi fróðleikur aðgengilegur. Það er hægt að gera hann aðgengilegan á netinu eða í tölvuvinnslum einhvers konar og þeir sem ekki hafa aðgang að slíku gætu nálgast upplýsingar hjá umboðsmanni.

Síðan þarf annað að gerast. Það þarf að tryggja lýðræðislega umfjöllun um störf umboðsmanns Alþingis og þá styð ég að sú skýrsla sem lögð verður fyrir Alþingi til umræðu verði mun styttri en sú sem hér er og þar verði að finna samantektir og ábendingar embættisins til löggjafans og sérstök áhersla verði einnig lögð á þau mál sem fá ekki afgreiðslu eða þar sem framkvæmdarvaldið fer ekki að ábendingum umboðsmanns Alþingis. Þau mál þarf að taka sérstaklega til skoðunar að mínum dómi á Alþingi.

Síðan ítreka ég að ég styð það að þetta embætti verði styrkt og tek undir með öðrum hv. þm. sem hafa lagt áherslu á þetta. Samkvæmt fjárlagafrv. fær embætti umboðsmanns Alþingis 56,7 millj. kr. En samkvæmt því sem hefur komið fram taldi embættið nauðsynlegt að fá rýmri fjárhæð og ég styð mjög eindregið að farið verði að þerri ósk.