Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:09:54 (535)

1999-10-14 12:09:54# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:09]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar um starfshóp sem ég skipaði til þess að fara yfir mál sem vörðuðu Landssímann, vil ég rifja upp að ástæðan fyrir því að ég taldi nauðsynlegt að ríkisendurskoðandi fengist að þessari vinnu er sú að ríkisendurskoðandi endurskoðar ársreikninga símans. Málið snerist um það að upp spratt deila um það hvort eignamat væri og hefði verið framkvæmt á þann hátt sem eðlilegt væri á sínum tíma þegar gengið var til þess verks á grundvelli laga að meta eignir símans, að ég taldi að það væri í fyllsta máta eðlilegt að ríkisendurskoðandi væri í þessum starfshópi og hef ekkert skipt um skoðun á því og taldi það afar mikilvægt einmitt til þess að þessari skoðun fylgdi mikið traust og styrkur að ríkisendurskoðandi væri þarna aðili. Aðrir með honum í þessum hópi, sem er fjarri því að vera pólitískur hópur eins og hv. þm. lýsti, voru ráðuneytisstjórinn í fjmrn. og virtur hæstaréttarlögmaður hér í bæ. Ég held því að ekki fari á milli mála að seta ríkisendurskoðanda í þessum starfshópi var í fyllsta máta eðlileg vegna þess að Ríkisendurskoðun endurskoðar reikninga Landssímans.