Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:14:58 (538)

1999-10-14 12:14:58# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:14]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessar upplýsingar, að starfshópurinn ætlar að gera grein fyrir niðurstöðum sínum. En ég bið hv. þingmenn að hugleiða aðeins með sjálfum sér í hvaða stöðu ríkisendurskoðandi er núna kominn í þessum efnum. Hann hefur setið í starfshópi með virtum lögfræðingi hér í bæ og ráðuneytisstjóra fjmrn. til að leita svara við gagnrýni Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs. Væntanlega er það í þessum starfshópi eins og fleirum að menn reyna að leita sameiginlegrar niðurstöðu. Þar sem ríkisendurskoðandi er einn þriggja aðila í þessari nefnd tekur hann væntanlega þátt í þeirri sáttargjörð eins og aðrir. Í þessum hópi eins og öðrum ámóta, hefur samgrh. væntanlega komið að vinnu hópsins eftir því sem henni hefur undið fram. Ég geng út frá því sem vísu þar sem um ráðgjafarhóp er að ræða. Finnst hæstv. ráðherra og finnst hæstv. forseta það í samræmi við hina sjálfstæðu stöðu Ríkisendurskoðunar lögum samkvæmt að hann taki þátt í ferli af þessum toga, ekki síst þegar hann er endurskoðandi þessari stofnunar? Ég undirstrikaði það og sagði áðan og segi enn og aftur að allt öðru máli hefði um það gegnt ef hæstv. ráðherra hefði óskað eftir formlegri endurskoðun og formlegri og athugun og rannsókn og úttekt Ríkisendurskoðunar á þessum álitaefnum. Þá hefði Ríkisendurskoðun sjálf staðið undir þeim kostnaði eins og venja er til og allar upplýsingar um málið komið hingað til hins háa Alþingis.

Þess vegna árétta ég þá fyrirspurn mína að á mánudaginn, þegar skýrt verður frá niðurstöðum hópsins, verði líka öll vinnsluskjöl þessa hóps gerð okkur sýnileg þar sem þessi starfsmaður Alþingis kom að verki og einnig verði algerlega kýrskýrt hver hafi verið þóknun ef einhver er til þessara nefndarmanna, sundurliðun á þá þrjá.