Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:37:47 (545)

1999-10-14 12:37:47# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:37]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það má kannski segja að nú sé ekki í fyrsta skipti sem skvett er úr klaufunum af þingmönnum Alþfl. í þessum stóli. Auðvitað hefur sá maður sem hverju sinni gegnir embætti forseta Alþingis fulla heimild til þess að snúast til varnar ef fundið er að embættisfærslu hans í fyrri störfum. Auk þess hefur hann fulla heimild til að taka þátt í almennum umræðum á hinu háa Alþingi, leggja fram mál og þar fram eftir götunum. Hann hefur fullan rétt til að starfa eins og hver annar þingmaður hér innan þessara veggja. Fyrir því er íslensk þinghefð og dugir í því sambandi að vitna til Jóns Sigurðssonar forseta.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég benda á að það er ekki rétt sem hv. þm. sagði, að einungis hafi orðið lækkun á verðlagi á þjónustu GSM-símans hjá Landssímanum. Þetta er fullkomlega rangt. Landssíminn lækkaði verðskrár sínar verulega áður en síminn var gefinn frjáls. Þannig að hv. þm. fer þarna rangt með.

En á hinn bóginn bað Samkeppnisstofnun, ef ég man rétt, um að Landssíminn lækkaði ekki gjaldskrá GSM-þjónustu vegna samkeppninnar.

Í þriðja lagi vil ég segja að þegar ég var að tala um hlutverk Ríkisendurskoðunar áðan þá var ég ekki að tala um persónu ríkisendurskoðanda. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á því hvað lögfræðingurinn átti við þegar hann talaði um að finna hefði mátt aðra einstaklinga til að gegna þessu starfi. Um það er að ræða að Ríkisendurskoðun fer með daglega endurskoðun og eftirlit með rekstri Landssímans.

Hvert einasta hlutafélag leitar auðvitað til endurskoðanda síns um þau mál sem mikilvægust eru í efnahags- og rekstrarreikningum fyrirtækisins. Það á auðvitað líka við um Landssímann.