Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 12:45:06 (549)

1999-10-14 12:45:06# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[12:45]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykn. Rannveig Guðmundsdóttir kom inn á tvo þætti í máli sínu hér áðan sem óhjákvæmilegt er að víkja að. Annars vegar spurði hv. þm. hvort ríkisendurskoðandi þægi persónulega laun frá bönkum eða öðrum fyrir þá vinnu sem hann lætur í té sem endurskoðandi. Svo er ekki. Hann þiggur engar slíkar persónulegar greiðslur fyrir störf sín. Laun hans eru ákveðin af Kjaradómi og það er það sem hann fær klippt og skorið.

Á hinn bóginn er að finna í skýrslunni á bls. 30 tekjur undir liðnum Seld þjónusta 20.972.072 kr. Í þessari tölu eru aukagreiðslur og annað því líkt sem m.a. ríkisendurskoðandi fær fyrir vinnu sína og rennur þess vegna til stofnunarinnar en ekki persónulega til ríkisendurskoðanda.

Í öðru lagi spurði hv. þm. um umhverfismál, hvernig Ríkisendurskoðun mundi haga störfum sínum og til hvers störf Ríkisendurskoðunar tækju. Til að skýra það er einfaldast að rifja upp það sem stendur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um umhverfisendurskoðun, með leyfi hæstv. forseta:

,,Segja má að síðastliðna þrjá áratugi hafi umhverfismál verið ofarlega á lista alþjóðastjórnmálanna þó að þess hafi e.t.v. ekki sést merki hér á landi fyrr en allra síðustu ár. Til dagsins í dag hafa verið undirritaðir um 220 alþjóðlegir umhverfissamningar, langflestir sl. 25 ár. Ísland á aðild að 20 slíkum samningum, að ógleymdum EES-samningnum, en með fullgildingu hans ákváðu íslensk stjórnvöld að taka upp stóran hluta löggjafar Evrópusambandsins á sviði umhverfismála.

Auk lagalega bindandi samninga eiga íslensk stjórnvöld aðild að ýmsum viljayfirlýsingum, áætlunum og stefnumörkunum sem unnar eru á alþjóðlegum vettvangi án þess að vera skuldbindandi í skilningi þjóðarréttar. Ríó-yfirlýsingin og ,,Agenda 21`` sem margir kannast við eru dæmi um slíkt samstarf. Önnur alþjóðleg áætlun sem færri þekkja, en skiptir Íslendinga ekki síður máli, er áætlun um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum, oft kölluð Washington-áætlunin (Global Programme of Action for the Protection of Marine Environment from Land-Based Activities).

Auk samstarfs á alþjóðavettvangi eru svo settar ýmsar innlendar reglur án sérstakrar samvinnu við erlend ríki, s.s. reglur um skipulag og nýtingu hálendisins o.s.frv.

Allt það sem talið hefur verið hér að ofan endurspeglast svo í umfangsmiklum lögum, reglugerðum og áætlunum hérlendra stjórnvalda sem fela í sér kvaðir á ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga í landinu.``

Þegar sérstaklega er fjallað um hlutverk Ríkisendurskoðunar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Á síðari árum hefur svokölluð umhverfisendurskoðun verið í þróun innan Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðenda (INTOSAI). Henni er ætlað það hlutverk að kanna hvernig alþjóðlegum samningum, áætlunum, lögum og reglum á sviði umhverfismála er framfylgt af hálfu stjórnvalda og hvort slíkt sé gert á hagkvæman og skilvirkan hátt.

Með nýjum lögum um Ríkisendurskoðun, nr. 86/1997, var stofnuninni veitt heimild til að framkvæma umhverfisendurskoðanir af því tagi sem að framan er lýst. Þetta ákvæði er nýtt af nálinni hér á landi, en að mati löggjafans var talið brýnt að Ísland drægist ekki aftur úr í hraðri þróun á sviði umhverfismála, þar með talinni umhverfisendurskoðun. Umhverfisendurskoðun felst, samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laga um Ríkisendurskoðun, í því að endurskoða og kanna áhrifin af starfsemi, stefnu og rekstri stofnana og fyrirtækja á umhverfið og fylgjast með því hvort einkaréttarlegir aðilar og opinberir aðilar framfylgja lögum og reglugerðum, svo og reglum og alþjóðasamningum á sviði umhverfismála.

Í þessu skyni hafa verið ráðnir tveir starfsmenn til Ríkisendurskoðunar. Starf þeirra mun í fyrstu snúast um stefnumótun á þessu sviði innan stofnunarinnar, en auk þess verður gerð úttekt á framkvæmd skuldbindinga samkvæmt svokölluðum OSPAR-samningi sem er svæðisbundinn samningur um verndun Norður-Atlantshafsins. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við ríkisendurskoðanir Danmerkur og Noregs samkvæmt sérstökum samningi þar um. Stefnt er að því að taka einnig fyrir verkefni innan lands, en ekki hefur verið ákveðið hvar borið verður niður í því efni.``

Ég vona að þessi greinargerð skýri það mál sem hv. 4. þm. Reykn. vakti athygli á og spurðist fyrir um.

Ég vil að síðustu segja vegna ummæla hv. 17. þm. Reykv., Kolbrúnar Halldórsdóttur, að fyrr á þessu ári tók samgrn. upp það sem kallað hefur verið græn reikningsskil og fól stofnunum samgrn. að vinna á þeim grundvelli. Hugmyndin var síðan sú að skýrsla eða greinargerð þeirra stofnana sem heyra undir samgrn. mundu fylgja þeim skýrslum sem lagðar eru fram á Alþingi um starfsemi þessara stofnana. Ég tel að með því hafi verið komið inn á ný vinnubrögð með skipulegri hætti a.m.k. í opinberum rekstri, umhverfisvænni vinnubrögð má segja en áður hefur verið þannig að hv. þm. á að gefast auðveldlega tækifæri að kynna sér hvernig þessi mál eru vaxin í samgrn. og hjá stofnunum þess.

Ég vil að síðustu, herra forseti, taka fram vegna þeirra orðaskipta sem fóru fram áðan að auðvitað er það óhjákvæmilegt þegar dregið er í efa að ég hafi með eðlilegum hætti, að ég ekki segi heiðarlegum, unnið að embættisverkum samgrh. að til allsnarpra orðaskipta hljóti að koma milli mín og þess þingmanns sem slíkt gefur í skyn.