Verslun með manneskjur

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:02:34 (562)

1999-10-14 14:02:34# 125. lþ. 9.93 fundur 70#B verslun með manneskjur# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[14:02]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Á því herrans ári 1999 stendur verslun með manneskjur í blóma um allan heim. Rúmri öld eftir að þrælahald var gert útlægt úr samfélagi manna þrífst nútímaþrælahald klámiðnaðarins sem aldrei fyrr.

Til skamms tíma gátum við Íslendingar látið sem vandamálið kæmi okkur ekki við en ekki lengur, herra forseti, því að klámbylgjan hefur skollið á ströndum landsins með fullum þunga.

Eftirspurnin er svo sannarlega fyrir hendi. Það hafa könnunarferðir Stígamótakvenna á klámbúllur bæjarins sýnt fram á og við verðum að horfast í augu við það, hv. þm., að það eru karlkyns landar okkar sem halda eftirspurninni uppi. Mundi eftirspurnin kannski minnka ef konurnar sem á klámbúllunum starfa væru íslenskar? Klám og vændi þrífst á misnotkun á konum og börnum. Það færir sér neyð og fátækt fólks í nyt, sérstaklega í löndum þar sem örbirgð er mikil.

Í upplýsingum frá Evrópuráðinu kemur fram að hálf milljón ungra stúlkna og kvenna er á hverju ári flutt frá Austur- og Suður-Evrópu til Vestur-Evrópu, hneppt í fjötra klámiðnaðarins með gylliboðum um peninga og frelsi. Raunveruleikinn er allt annar. Þrældómur og þjórfé í nærhaldið. Klámiðnaðurinn malar gull og er oftar en ekki tengdur annarri ólöglegri starfsemi eins og eiturlyfjasölu og ólöglegri verslun með vopn.

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt um svokallaða ,,sölumenn dauðans`` og nauðsyn þess að ná lögum yfir eiturlyfjasala. En hingað til hafa forkólfar kláms og vændis verið látnir svo að segja óáreittir.

Herra forseti. Sölumenn kvennakúgunar og misnotkunar ganga lausir, líka á Íslandi.