Verslun með manneskjur

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:04:42 (563)

1999-10-14 14:04:42# 125. lþ. 9.93 fundur 70#B verslun með manneskjur# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Eins og þegar hefur verið minnst á í umræðunni vakti ræða Vaira Vike-Freiberga, sem hún flutti hér á ráðstefnunni um konur og lýðræði um síðustu helgi, ýmsa til umhugsunar um þau mál sem hér eru á dagskrá. Þar vakti hún máls á örlögum fátækra ungmenna af báðum kynjum úr þessum fátæku löndum sem eru að reyna að fóta sig á brautinni til lýðræðis og efnahagslegs sjálfstæðis en út á örbirgð þessara ungmenna gerir klámiðnaðurinn á Vesturlöndum miskunnarlaust. Þarna er ekki aðeins sóst eftir konum heldur börnum af báðum kynjum. Hún taldi skuldinni allt of oft skellt á fórnarlömbin en raunin væri sú að það þyrfti alþjóðlegt átak til að vernda börn fyrir kynferðislegu ofbeldi og konur fyrir misnotkun af sama tagi.

Því miður hefur það gerst hægt og hljótt á undanförnum árum að kynlífsmarkaðurinn hefur verið að færast upp að bæjardyrunum hjá okkur á Íslandi. Sum víðlesnustu blöð þjóðarinnar keppast við að birta auglýsingar um ýmsa þá afþreyingu sem þarna er í boði og nú er svo komið að klámfyrirtækin eru búin að kæra hvert annað til Samkeppnisstofnunar vegna yfirboða í auglýsingum. Í fréttum nýverið kom fram að um 100 manns starfa nú við það hér á Íslandi að klæmast en það jafngildir þriðjungi þess fjölda sem mundi vinna við nýju álbræðsluna á Reyðarfirði.

Vaira Vike-Freiberga sagði að Eystrasaltslöndin gætu vel verið án verslunar með kynlíf og klámefni og ég leyfi mér að segja að við Íslendingar eigum að reyna að verjast þeirri holskeflu sem hér ríður nú yfir. Hið venjulega sem boðið er fram á þessum markaði verður nefnilega ekki nógu spennandi þegar til lengdar lætur og stöðugt þarf að finna upp á einhverju meira krassandi. Stemmum stigu við viðgangi klámiðnaðarins áður en í óefni er komið.