Verslun með manneskjur

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:06:48 (564)

1999-10-14 14:06:48# 125. lþ. 9.93 fundur 70#B verslun með manneskjur# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[14:06]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu mjög alvarlegt mál og það sem sagt hefur verið í þessum sal er eflaust allt satt og meira til. Ég hef heyrt af því að ungar stúlkur hafi komið grátandi til Leifsstöðvar, stúlkur sem höfðu verið starfandi og eru starfandi á þessum búllum, biðjandi um far til heimalands síns en þær höfðu verið sviptar passa og peningum þannig að þær gátu sig hvergi hreyft. Ég veit að þessi tilfelli eru fleiri en eitt og fleiri en tvö svo það er sannleikanum samkvæmt að ungar stúlkur eru hnepptar í einhverja atvinnu sem þær gerðu sér ekki grein fyrir hvers eðlis var. Ég held að ef við komum að því atriði sérstaklega sé full ástæða fyrir stjórnvöld að kanna hvað mikið er af síku.

Við vitum það einnig að bæjarstjórnir eins og bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur barist hart gegn því að opnaður yrði dansstaður með vínveitingaleyfi eins og víða er í Reykjavík en þeir hafa einatt verið hraktir á brott með röksemdafærslur sínar vegna þess að þeir eru að mismuna stöðum og það séu ekki nægjanleg rök að þar fari fram dans að hafna vínveitingaleyfi á þeim forsendum. Þannig hafa risið staðir suður í Reykjanesbæ og vínveitingaleyfi hefur heldur ekki beinlínis skipt máli því að menn hafa opnað slíka dansstaði án vínveitinga og þeir hafa verið sóttir eftir sem áður. Ég sé því ekki að það sé aðferð til þess að koma í veg fyrir þessa starfsemi.

Að sjálfsögðu fagna ég því að hæstv. dómsmrh. ætlar að taka á þessu máli en það þarf marga til, ríkisstjórnina alla, því að annars verður erfitt að ná tökum á þessu alvarlega máli.