Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:20:18 (569)

1999-10-14 14:20:18# 125. lþ. 10.1 fundur 89. mál: #A almenn hegningarlög# (umhverfisbrot) frv. 122/1999, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þó hér sé um að ræða frv. um breyting á almennum hegningarlögum, þá tekur það mjög til umhverfisverndar. Ég á sæti fyrir Samfylkinguna í umhvn. og kem þess vegna hingað upp til að lýsa í fljótu bragði viðhorfum okkar samfylkingarmanna. Við teljum að þetta sé mjög gott frv.

Í dag er, herra forseti, engin almenn löggjöf um umhverfisvernd á Íslandi. Lög sem taka til umhverfisverndar er að finna á mörgum stöðum. Hér er verið að skjóta undir mjög alvarlegan leka. Þetta frv. er samið eins og fram kemur að tilhlutan dómsmrh. Það er hins vegar svo að frv. átti sér ákveðið tilefni. Hingað kom til lands erlendur ferðamaður sem olli miklum spjöllum á viðkvæmum stað á hálendinu. Af þessu hlutust miklar umræður í fjölmiðlum og frá þessu var ítarlega greint. Menn rak auðvitað í rogastans þegar í ljós kom að ekki var með nokkru móti hægt að leiða þennan umrædda ferðamann til ábyrgðar fyrir þann voðaverknað sem hann hafði framið.

Þetta frv. gerir það hins vegar að verkum að hægt er að koma lögum yfir þá sem skemma umhverfið, menga loft, jörð eða haf eða valda verulegum spjöllum á landslagi. Ég tel því, herra forseti, að þetta sé hið besta mál og mun ég og félagar mínir í umhvn. leggja kapp á að málið verði afgreitt með eðlilegum hraða.