Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:22:03 (570)

1999-10-14 14:22:03# 125. lþ. 10.1 fundur 89. mál: #A almenn hegningarlög# (umhverfisbrot) frv. 122/1999, KolH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[14:22]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar að hér sé um hið besta mál að ræða. Frv. tekur á málefni sem hefur kannski vantað í okkar hegningarlög hingað til, þ.e. það fjallar um refsingar varðandi brot á umhverfisrétti. Eins og alþjóð er kunnugt eru alþjóðlegar reglur um umhverfisrétt að verða æ viðameiri í allri löggjöf og við finnum fyrir því einnig á hv. Alþingi.

Ég vil lýsa því yfir fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að hún styður þetta frv. og fagnar því og ég sem fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í umhvn. kem til með að veita því liðsinni og brautargengi svo að það fái sem skjótasta og besta afgreiðslu í nefndinni.