Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:23:32 (571)

1999-10-14 14:23:32# 125. lþ. 10.3 fundur 12. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo og afleiðinga þeirra. Ályktunin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem fari í samráði við stjórnvöld með eftirfarandi hlutverk:

1. að marka stefnu varðandi þátttöku Íslands í hvers kyns starfi sem miðar að því að bregðast við umhverfisáhrifum af átökunum í Júgóslavíu á þessu ári,

2. að marka stefnu varðandi þátttöku Íslands í uppbyggingarstarfi á Balkanskaga,

3. að gera úttekt á lögfræðilegum álitamálum sem tengjast hernaðaraðgerðum NATO í Júgóslavíu og þjóðréttarlegum afleiðingum þeirra.``

Í rannsókn sem unnin var á vegum Umhverfisstofnunar Mið- og Austur-Evrópu kom berlega í ljós hversu alvarlegar afleiðingar hernaðarátökin í Júgóslavíu hafa þegar haft og munu hafa í framtíðinni fyrir umhverfi og náttúrufar á Balkanskaga. Stofnun þessi, sem sett var á fót árið 1990 af Bandaríkjunum, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Ungverjalandi og hefur það hlutverk að aðstoða við lausn umhverfisvandamála í Mið- og Austur-Evrópu, stóð að umfangsmikilli gagnasöfnun og rannsóknum í Júgóslavíu og fjórum nágrannalöndum með aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga í ýmsum málefnum Júgóslavíu, Makedóníu og Albaníu. Í skýrslunni, sem er aðgengileg á vefsíðu stofnunarinnar, er að finna alvarlegar staðreyndir um umhverfisáhrif sem þegar liggja fyrir og ískyggilegar framtíðarhorfur á mörgum sviðum.

Rannsóknir benda til þess að ekki verði að svo komnu máli talað um allsherjarumhverfisslys af völdum stríðsins í Júgóslavíu. Samt sem áður er mengunin mjög alvarleg í nágrenni við verksmiðjur sem urðu fyrir loftárásum, svo sem í Pancevo, Prahovo og Novi Sad, og mörg dýrmæt vistkerfi urðu eyðileggingu að bráð. Átökin höfðu einnig mikil áhrif á hið mannlega umhverfi, einkum í Kosovo-héraði. Alls staðar í Júgóslavíu urðu innviðir samfélagsins fyrir miklu tjóni. Þrátt fyrir að ekki verði enn séð að stríðið hafi haft stórkostleg áhrif á flóru eða fánu svæðisins segir það ekkert um langtímaáhrifin. Rannsóknin leiddi í ljós að eftirfarandi tjón hefur þegar orðið eða gæti orðið:

Mikil mengun í kringum helstu hernaðarleg skotmörk, einkum í efnaiðnaði.

Vistkerfum er ógnað, einkum í og við ár.

Matvæli eru menguð vegna jarðvegs- og loftmengunar.

Mengun er í drykkjarvatni.

Heilbrigðisvandamál eru fyrirsjáanleg vegna langtímaverkana eitraðra og krabbameinsvaldandi efna og geislavirkni.

Umhverfisspjöll hafa orðið í tengslum við flóttamannavandann í Kosovo-héraði, Albaníu og Makedóníu og einnig í Serbíu og Svartfjallalandi.

Geta júgóslavneskra yfirvalda til að takast á við umhverfisvandamál er enn minni en var fyrir átökin. Sama er að segja um borgaraleg samtök sem kallast NGO. Þar að auki er fyrirsjáanlegt, m.a. í ljósi reynslunnar frá Bosníu, að umhverfissjónarmið eru lítils metin þegar kemur að enduruppbyggingu, ekki síst þar sem slíkt starf er iðulega kapphlaup við tímann. Til að komast fyllilega að raun um langtímaáhrifin þarf að afla frekari gagna um ástandið eins og það er og fylgjast vel með þróun mála í framtíðinni.

Hvað varðar vatnsmengun þá er mengun í vatni á yfirborði jarðar mikil vegna leka frá skemmdum efnaverksmiðjum eða illa skipulögðum flótamannabúðum. Í grg. sem fylgir þáltill. er getið nánar um þessi áhrif.

Hvað snertir loftmengun af völdum hernaðarins hafa líka komið í ljós afskaplega alvarleg áhrif og má nefna þar á meðal að fullyrt er að í Júgóslavíu mælist geislavirk mengun frá vopnum sem innihalda sneytt úran.

Vínyl-klóríð-einliður sem eru einföld efnasambönd, gerð úr fáum atómum, hafa samkvæmt júgóslavneskum skýrslum náð 10.600 sinnum meiri styrk en leyfilegt er í nágrenni olíuefnaverksmiðjunnar í Pancevo. Leifar þessara efna dreifðust með mengunarskýjum, þar á meðal fosfórsambönd, klór, klóxíð og níturoxíð og svona mætti áfram telja og bendi ég á grg. þáltill. til frekari upplýsingar um þessi mál.

Mengun í jarðvegi er einnig afskaplega mikil en land- og lofthernaður eyðilagði búsvæði margra plöntu- og dýrategunda. Mörg búsvæði munu spillast vegna efnamengunar í jarðvegi og mengunar sem berst í lofti og vatni. Mikil röskun varð á dýralífi, m.a. við helstu leiðir flóttamanna. Í Makedóníu hefur orðið mikil fjölgun meðal sumra dýrategunda. Talið er að þau hafi flúið frá Kosovo-héraði. Að auki urðu mörg verndarsvæði og þjóðgarðar fyrir tjóni, bæði í Júgóslavíu og Albaníu.

Stórkostlegar skemmdir hafa verið unnar á mannvirkjum, einkum í tilteknum þorpum í Kosovo-héraði og miðbæjum ýmissa þéttbýlisstaða í öðrum hlutum Júgóslavíu. Meira en 1.400 óbreyttir borgarar féllu í loftárásunum á Júgóslavíu en ekki eru til áreiðanlegar tölur um mannfall meðal óbreyttra borgara í Kosovo-héraði eða mannfall í herliði stríðandi aðila. Því hefur þó verið slegið föstu að þær tölur séu hærri en hér um getur.

Búist er við neikvæðum áhrifum á heilsufar fólks í Júgóslavíu vegna skemmda á veitukerfum, þar á meðal fráveitum, og bágra aðstæðna í sumum flóttamannabúðum.

Um hugsanleg áhrif í framtíðinni má segja þetta:

Hætta er á viðvarandi mengun vatns og votlendis af völdum ýmissa hættulegra efna. Reiknað er með þau muni safnast fyrir í ám og grunnvatni. Mikilvæg vatnsból í Albaníu og Makedóníu eru í mikilli hættu.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr loftmengun eftir að átökunum lauk ber að athuga að hugsanleg áhrif af notkun sneydds úrans eru miklu langvinnari.

Hætta er á að margs konar mengun hafi langtímaáhrif á heilsufar fólks. Hugsanleg mengun í matvælum í framtíðinni er veruleg ógnun við íbúa þessa svæðis. Þar að auki hefur hið opinbera ekki bolmagn til að standa að fullnægjandi rannsóknum og eftirliti og það ástand eykur mjög á hættuna í þessum efnum.

Hægfara uppbygging ógnar líka lífi og heilsu fólks, ekki síst í Kosovo-héraði. Sama gildir um hina gífurlegu eyðileggingu á orkuveitum Júgóslavíu þar eð vetur nálgast.

[14:30]

Ljóst er að vinna þarf geysilegt uppbyggingarstarf í Júgóslavíu allri á komandi árum, ekki síst ef þar á geta orðið friðvænlegt í framtíðinni. Í því sambandi hefur verið talað um að kostnaðurinn geti orðið 31 milljarður Bandaríkjadala eða hátt í 2.300 milljarðar íslenskra króna. Brýnasta verkefnið er að tryggja öryggi og aðbúnað flóttamanna af öllum þjóðernum. Víðs vegar um Serbíu og Svartfjallaland verður að endurbyggja orkuveitur og ýmis samgöngumannvirki. Mörg hundruð verksmiðjur og fjölmörg íbúðarhús hafa verið eyðilögð. Jafnframt er nauðsynlegt að hreinsa upp jarðsprengjur og klasasprengjur auk skaðlegra efna sem hafa farið út í umhverfið í árásum á olíuhreinsistöðvar og efnaverksmiðjur. Sýnt þykir að mengunin muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir matvælaframleiðslu í landinu á sama tíma og Júgóslavar munu neyðast til að snúa sér að landbúnaði í auknum mæli vegna þess að iðnaður þeirra hefur að stórum hluta verið lagður í rúst.

Efnahagsleg uppbygging er lykilatriði í því að koma á friði og stöðugleika í landinu. Ef íbúar Júgóslavíu verða fátæktinni að bráð er útilokað að tryggja friðsamlega sambúð þjóðanna á þessu svæði. Slík uppbygging verður að eiga sér stað með aðstoð hinna betur megandi ríkja en ekki á þeirra forsendum heldur í fullri sátt við almenning í Júgóslavíu. Jafnframt er afar mikilvægt að þjóðarbrotunum verði ekki mismunað í þeim efnum þar sem slíkt mundi vafalaust leiða til enn meiri spennu á svæðinu.

Ofan á allt framangreint bætist svo gífurleg eyðilegging menningarverðmæta og sögulegra minja í þessu stríði. Gamli borgarhlutinn í Pec, þar sem finna mátti tyrkneskar byggingar frá tímum Ottómana-ríkisins, er rústir einar. Fleiri dæmi eru, Hadum-moskan í nágrenni Djakovica, byggð á 16. öld, Vrsac-turninn við rúmensku landamærin, byggður á miðöldum og kirkjan í Gracanica skammt frá Pristina þar sem freskumyndir frá 14. og 15. öld hafa orðið eyðileggingunni að bráð. Í Belgrad varð Rakovica-klaustrið sem byggt var á 16. öld fyrir sprengjum. Sama má segja um St. Nikulásar-kirkjuna sem var byggð á 12. öld og kirkju St. Prókópíusar en hún er frá 9. öld. Þetta eru einstakar minjar frá árdögum kristninnar í Austur-Evrópu og því er skaðinn óbætanlegur í menningar- og sögulegu tilliti. Slíkar árásir NATO-hersins minna hastarlega á framferði Serba í umsátrinu um borgirnar Vukovar og Dubrovnik í Króatíu fyrir nokkrum árum.

Óhætt er að segja að með loftárásunum á Júgóslavíu hafi NATO afhjúpað eðli sitt sem árásarbandalag og tekið sér sjálfdæmi í öryggis- og varnarmálum sem snerta grannríki bandalagsins.

Það er því skylda okkar Íslendinga sem höfum tekið óbeinan þátt í þessum hernaði að standa vel að uppbyggingarstarfi því sem nú verður að fara fram til þess að hægt sé að leiðrétta að einhverju leyti, einhvern hluta þeirra mistaka sem gerð voru þegar árásirnar voru hafnar.