Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:34:11 (572)

1999-10-14 14:34:11# 125. lþ. 10.3 fundur 12. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[14:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þegar herflugvélar NATO létu sprengjum rigna yfir Balkanskagann fyrr á þessu ári mótmæltum við harðlega innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Í þjóðfélaginu fór talsverð umræða fram um þetta og einhver hér á þingi, allt of lítil. Ég hygg að það hafi einvörðungu verið við innan Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem höfðum uppi mótmæli. Eitt af því sem við vöktum athygli á í málflutningi okkar voru umhverfisáhrifin af þessu stríði. Ég minnist þess að einhverju sinni sátu fyrir svörum tveir hæstv. ráðherrar, reyndar oddvitar stjórnarflokkanna, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson. Þeir hneyksluðust mjög á málflutningi okkar og spurðu á þá leið hvort þetta væri ekki ábyrgðarleysi af okkar hendi. Þarna væri verið að þrengja að mannréttindum, myrða fólk og beita það ofbeldi en NATO-herinn væri að koma því til hjálpar. Við vildum fara aðrar leiðir í að rétta fram þá hjálparhönd en senda herflugvélar hlaðnar sprengjum og varpa yfir fólkið. Við bentum á að áhrifin á umhverfið væru ekki með öllu óskyld eða ótengd mannréttindum heldur og því hvernig farið væri með manneskjur.

Nú er að koma í ljós að orð okkar reyndust eiga við rök að styðjast. Í greinargerð með þessari þáltill. sem er flutt af hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og Steingrími J. Sigfússyni, er vísað til rannsóknar sem unnin var á vegum Umhverfisstofnunar Mið- og Austur-Evrópu, Regional Environmental Center for Central and Eastern Europe. Og eins og fram kom í máli hv. 1. flm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, þá er gerð mjög ítarleg grein fyrir niðurstöðum þessarar skýrslu og bent á hvar hægt er að nálgast hana í meiri smáatriðum.

Í yfirlitinu sem birt er með þáltill. er farið yfir mengunina á einstökum sviðum og vísað til þess að rannsóknir bendi til þess að ekki verði að svo komnu máli talað um allsherjarumhverfisslys af völdum stríðsins í Júgóslavíu. Engu að síður er vitnað til ákveðinna niðurstaðna sem benda til að ástandið sé á ýmsum sviðum mjög alvarlegt.

Mengun í vatni á yfirborði jarðar er mikil vegna leka frá skemmdum efnaverksmiðjum eða illa skipulögðum flóttamannabúðum. Síðan eru tíunduð frekari áhrif í þessu efni.

Hvað snertir loftmengun af völdum hernaðarins hefur komið fram m.a. að fullyrt sé að í Júgóslavíu mælist geislavirk mengun frá vopnum sem innihalda sneytt úran. Ég ætla ekki að tíunda þetta nánar. Það er talað um mengun, alvarlega mengun í jarðvegi. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Stórkostlegar skemmdir hafa verið unnar á mannvirkjum, einkum í tilteknum þorpum í Kosovo-héraði og miðbæjum ýmissa þéttbýlisstaða í öðrum hlutum Júgóslavíu. Meira en 1.400 óbreyttir borgarar féllu í loftárásunum á Júgóslavíu en ekki eru til áreiðanlegar tölur um mannfall meðal óbreyttra borgara í Kosovo-héraði eða mannfall í herliði stríðandi aðila.``

Síðan er fjallað nánar um þetta og vikið að hugsanlegum áhrifum í framtíðinni. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Á þessu sviði er þörf á frekari gagnasöfnun og rannsóknum en eftirfarandi er augljóslega áhyggjuefni:

Hætta er á viðvarandi mengun vatns og votlendis af völdum ýmissa hættulegra efna. Reiknað er með að þau muni safnast fyrir í ám og grunnvatni. Mikilvæg vatnsból í Albaníu og Makedóníu eru í mikilli hættu.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr loftmengun eftir að átökunum lauk ber að athuga að hugsanleg áhrif af notkun sneydds úrans (DU) eru miklu langvinnari.

Hætta er á að margs konar mengun hafi langtímaáhrif á heilsufar fólks. Hugsanleg mengun í matvælum í framtíðinni er veruleg ógnun við íbúa þessa svæðis. Þar að auki hefur hið opinbera ekki bolmagn til að standa að fullnægjandi rannsóknum og eftirliti og það ástand eykur mjög á hættuna í þessum efnum.

Hægfara uppbygging ógnar líka lífi og heilsu fólks, ekki síst í Kosovo-héraði. Sama gildir um hina gífurlegu eyðileggingu á orkuveitum Júgóslavíu þar eð vetur nálgast.``

Allt er þetta til að sýna fram á nauðsyn þess að á markvissan hátt sé unnið að uppbyggingarstarfi á Balkanskaganum og við erum að hvetja til þess að Íslendingar komi myndarlega að því eins og gerð er grein fyrir í þessari þáltill.

Varðandi mengunina af þessum hernaði, þá segir í niðurlagi greinargerðarinnar sem fylgir þáltill., með leyfi forseta:

,,Hins vegar er ljóst að NATO hefur notað svokallaðar DU-fallbyssukúlur í árásum á skriðdreka og önnur farartæki í Júgóslavíu. DU er skammstöfun fyrir sneytt úran (depleted uranium) en það er eitthvert þyngsta og þéttasta frumefni sem til er. Af þeim sökum er það afar hentugt í fallbyssukúlur og kemst í gegnum meira en 5 sm þykka brynvörn. Að auki er hitamyndunin við það svo mikil að eldur verður samstundis laus í skotmarkinu. Við slíkan bruna fer mikið af geislavirku ryki út í andrúmsloftið. Mælingar á geislun frá einni DU-kúlu benda til þess að geislunin á hverri klukkustund samsvari 1/5 af því sem mannslíkaminn er talinn þola á heilu ári. Mikið hefur verið rætt og ritað um afleiðingarnar af notkun slíkra kúlna í Flóabardaga 1991 ...``

Á þetta er rétt að leggja áherslu. Eftir að hinu opinbera stríði lauk gegn Írak, Flóastríðinu --- ég segi opinberu stríði vegna þess að enn er haldið uppi stöðugum loftárásum á Írak --- þá lognaðist umræðan (Forseti hringir) um þennan styrjaldarrekstur út af, því miður, því að afleiðingarnar eru enn að koma í ljós. Ég er að ljúka máli mínu, herra forseti. Í suðurhéruðum Íraks sem urðu verst úti í þessum hernaði er að koma á daginn að tíðni hvítblæðis, einkum meðal ungra barna, hefur stóraukist. Þar bera ábyrgðina sömu aðilar og bera ábyrgðina á sprengjuregninu á Balkanskaga fyrr á þessu ári.