Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 14:43:04 (573)

1999-10-14 14:43:04# 125. lþ. 10.3 fundur 12. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[14:43]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að árás NATO á Júgóslavíu í vor er eitt versta pólitíska áfall sem ég hef orðið fyrir. Ég hafði í barnaskap lifað í voninni um að yfirlýsingar um þátt NATO í Partnership for Peace hefði breytt nokkuð hlutverki NATO og við ættum ekki von á neinu í líkingu við það sem þarna gerðist þar sem NATO kemur og ræðst á frjálst og fullvalda ríki í miðri Evrópu. Auðvitað höfðu verið erfiðir tímar og miklar væringar milli Serba og Albana í Kosovo. Ég vil ekki draga úr því. Ég vil heldur ekki hefja upp þátt Milosevic í þessu öllu saman. Hann var ekki til eftirdæmis. En að her, að mestu leyti úr annarri heimsálfu, skuli koma og ráðast á, eins og ég sagði áðan, frjálst og fullvalda ríki í miðri Evrópu, að því er sagt var vegna þessara rósta, hef ég ekki getað jafnað mig á. Ég verð að játa að það tímabil sem þessi hernaður stóð yfir vildi ég ekki lifa aftur. Við byrjuðum á því á morgnana að hlusta á hvaða efnaverksmiðjur, spítalar og málmverksmiðjur hefðu verið sprengdar nóttina áður og getgátur voru um hvaða vopnum væri þarna beitt í bland.

[14:45]

Ég er ekkert hissa að núna skuli þessi virðulega stofnun sem hér er nefnd, Umhverfisstofnun Mið- og Austur-Evrópu, komast að þeim niðurstöðum sem hér eru birtar. Vegna þess að við vitum hvað það hefur í för með sér þegar sprengdar eru upp efnaverksmiðjur. Við vitum líka hvað það hefur í för með sér fyrir náttúruna þegar sprengd eru upp málmiðjuver og við vitum hvað það hefur í för með sér þegar beitt er vopnum sem geislavirk mengun mælist frá. Allt þetta er nú að koma á daginn.

Farið hefur verið ágætlega yfir þetta í þáltill. og ég ætla ekki að fara að endurtaka það. Ég vil láta í ljós þá frómu ósk að þáltill. fái góða þinglega meðferð og ég lýsi yfir stuðningi mínum við efni hennar. Ég harma að ekki skuli vera fleiri hér í salnum til að taka þátt í umræðunni. Mér þykir tillagan mjög þörf og lýsi því yfir að ef hún kemur aftur til kasta Alþingis þá mun ég greiða því atkvæði mitt að við Íslendingar gerumst virkir aðilar að uppbyggingarstarfinu í Júgóslavíu, skilyrðislaust. Menningarverðmætin verða ekki byggð upp aftur og margt af þeirri mengun sem varð verður ekki forðað héðan af. En með samræmdum alþjóðlegum aðgerðum ætti að vera hægt að draga úr verstu afleiðingum þessara hörmunga og hjálpa júgóslavnesku þjóðinni til að lifa þetta af.