Aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:00:12 (580)

1999-10-14 15:00:12# 125. lþ. 10.3 fundur 12. mál: #A aðgerðir vegna stríðsátakanna í Kosovo# þál., Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:00]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þáltill. og sérstaklega ræðu hv. þm. Sigríðar Jóhannsdóttur. Ég vil einnig þakka þátttöku hv. formanns utanrmn., Tómasar Inga Olrichs, og gengst auðvitað fyllilega við andstöðu minni við aðild okkar Íslendinga að hernaðarbandalaginu NATO. Ég viðurkenni fúslega að liturinn sem hv. formaður utanrmn. þykist greina í greinargerð tillögunnar er að sjálfsögðu réttur, enda litast skoðanir mínar af tilfinningum mínum gagnvart hernaðarbandalaginu NATO. Þær eru öllum sem í þessum sal sitja fullkomlega kunnar og að öllu leyti ljósar. Ég treysti því hins vegar að sú staðreynd komi ekki í veg fyrir að hæstv. utanrmn. geti fjallað um tillöguna og tekið henni opnum huga. Ég lýsi því yfir fyrir hönd þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs að við erum fyllilega fús til að leggja okkar af mörkum til að sú vinna geti orðið markviss til að við Íslendingar getum sameiginlega gengist við þeirri ábyrgð sem við berum gagnvart því fólki sem upplifa þurfti þær hörmungar sem áttu sér stað og eiga sér enn stað í fyrrum Júgóslavíu.

Mér finnst varla hægt að skilja við þetta mál án þess að fara örfáum orðum um notkun NATO-hersins á ólöglegum vopnum. Í þessum átökum voru notaðar svokallaðar klasasprengjur sem ég hef áður vikið að í ræðu minni hér. Flugher NATO beitti klasasprengjum í árásum sínum á ýmis skotmörk í Júgóslavíu. Þetta eru sprengjur sem vega u.þ.b. 500 kg og innihalda nokkur hundruð smærri sprengjur sem dreifast í allar áttir þegar klasinn sjálfur springur. Hver smásprengja um sig splundrast í u.þ.b. 300 sprengjuflísar með hræðilegum afleiðingum fyrir þá sem fyrir verða eins og kom t.d. á daginn í árás NATO á markaðstorgið í Nis þann 7. maí.

Til að bæta gráu ofan á svart er talsvert um að smærri sprengjurnar dreifist um stór svæði án þess að springa. Þessar sprengjur ógna nú heilu þorpunum og hafa gert þau að einskismannslandi. Þær geta sprungið við snertingu og þær geta sprungið við titring frá umferð, rétt eins og jarðsprengjur. Þessi vopn eru nú þegar farin að taka toll sinn af æsku Kosovohéraðs. Ég segi við hv. Alþingi Íslendinga: Öxlum okkar hluta ábyrgðarinnar til að koma æsku Kosovohéraðs til hjálpar. Tökum vel á okkar hlut, mörkum stefnu varðandi þátttöku Íslands í því starfi sem miðar að því að bregðast við umhverfisáhrifunum af átökunum. Mörkum stefnu varðandi þátttöku Íslendinga í uppbyggingarstarfinu á Balkanskaga og látum gera úttekt á lögfræðilegum álitamálum sem tengjast hernaðaraðgerðum NATO í fyrrum Júgóslavíu og þjóðréttarlegum afleiðingum þeirra.

Að svo mæltu vísa ég þáltill. til hæstv. utanrmn. og vona að hún verði tekin fyrir af opnum huga og fái góða og faglega umfjöllun.