Sjálfbær orkustefna

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:18:05 (583)

1999-10-14 15:18:05# 125. lþ. 10.4 fundur 13. mál: #A sjálfbær orkustefna# þál., Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:18]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Lykilatriðið í þeirri till. til þál. sem hér er flutt er að Ísland taki forustu á sviði vistvænnar orkustefnu í heiminum. Löndin víða í kringum okkur eru að ræða þessi mál af fyllstu alvöru. Ég vona að nefndin sem fær þetta mál til umfjöllunar, sem trúlega verður hæstv. iðnn., skoði það sem verið er að gera á Norðurlöndunum varðandi svipuð mál. Þar eru þessar hugmyndir komnar talsvert lengra en hjá okkur. Við getum eins og svo oft áður lært af þeim grönnum okkar sem eru sama sinnis og við. Ég fagna líka yfirlýsingum hæstv. iðnrh. sem hefur margoft sagt að Ísland sé í stakk búið til að taka forustu í þessum málaflokki. Hann hefur barist fyrir því að Ísland verði tekið gilt í samfélagi þjóðanna sem vetnissamfélag og ég treysti því að Íslendingar geti einnig lagst á sveif með þeim sem eru að rannsaka sólarorku, vindorku og orkuna sem fólgin er í hafstraumunum. Orka frá þessum orkugjöfum er vistvæn og af henni eigum við nóg.

Tækni heimsins fleygir fram. Nú er verið að rannsaka þessa hluti út um allan heim. Ofurkapp er lagt á að hraða þessum rannsóknum því það er lífsnauðsyn fyrir heiminn allan og áframhaldandi lífvænleg skilyrði á jörðinni að þessari vinnu sé hraðað. Íslendingar geta lagt sitt þunga lóð á vogarskálarnar. Til þess þarf að breyta ákveðnum hlutum í stefnu stjórnvalda, sveigja af braut stóriðjustefnu og inn á braut sjálfbærrar orkustefnu. Þess vegna hvet ég til þess að sú nefnd sem fær þetta til umfjöllunar, hv. iðnn., taki þetta mál alvarlega til skoðunar.

Mig langar í lok máls míns að vitna örlítið til greinargerðarinnar með tillögunni sem er ansi viðamikil, í kafla sem fjallar um nýja hugsun og ný málstök:

,,Íslendingar eiga eins og aðrar þjóðir að leggja sitt af mörkum til að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í þeim efnum á heimsbyggðin gífurlegt verkefni fyrir höndum og samkomulagið í Kyoto var aðeins fyrsta skrefið af mörgum sem á eftir þurfa að fylgja. Þótt óvissa sé um umfang og hraða þeirra loftslagsbreytinga sem verða af mannavöldum má hér engu hætta til. Ísland er á krossgötum hafstrauma og loftstrauma í Norður-Atlantshafi og umhverfi okkar getur því verið sérstaklega viðkvæmt fyrir röskun.

Viðfangsefnið sem fram undan er kallar á nýja hugsun og ný málstök á öllum sviðum atvinnulífs, skipulags, framleiðslu- og neysluvenja og umgengni við orku í atvinnulífi, samgöngum og á heimilum. Allir þurfa að leggjast á eitt að draga úr þarflausri orkunotkun, að ekki sé talað um sóun. Þetta á auðvitað sérstaklega við þegar um jarðefnaeldsneyti er að ræða en endurnýjanlegar orkulindir eru einnig takmörkuð gæði sem valda umhverfisröskun og beislun þeirra kostar mikla fjármuni og álag á umhverfið.

Þess er vissulega að vænta að með margháttuðum tækninýjungum og endurbótum tækja og orkukerfa megi ná fram verulegum orkusparnaði og þannig hjálpi markaðurinn til. Það leysir hins vegar ekki stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, undan því að marka skýra stefnu og framfylgja henni.``

Þessi tillaga gengur út á að mörkuð verði stefna, sjálfbær orkustefna.