Ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:35:15 (585)

1999-10-14 15:35:15# 125. lþ. 10.93 fundur 73#B ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu# (umræður utan dagskrár), utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram í upphafi að ég hef ekki orðað það svo að verið sé að galopna umræðuna eða að hér sé um stórtíðindi að ræða. En ég stend að sjálfsögðu við þau ummæli sem höfð eru eftir mér í þessu viðtali.

Það er alveg ljóst að viðræðum við fyrstu ríkin sem að sóttu um aðild að Evrópusambandinu og eru nú í viðræðum við Evrópusambandið miðar heldur seint. Þar eru mikilvæg atriði eins og frjáls för fólks, umhverfismál og landbúnaðarmál sem standa í veginum. Þá má nefna að málaflokkur eins og frjáls för fólks er mjög erfiður. Ég minni t.d. á umræður sem hafa orðið í Austurríki vegna kosninga þar. Ég bendi á umræður sem hafa verið í Belgíu vegna sígauna og minni á að mjög víða í Evrópu eru minnihlutahópar sem telja sig búa við bág kjör og vilja sækja atvinnu annað ef Evrópusambandið stækkar.

Umhverfismálin eru jafnframt annað stórmál. Fyrir liggur að það þarf að leggja niður kjarnorkuver í sumum umsóknarríkjunum sem mun kosta verulegt fjármagn og verða til þess að orkuverð hækkar í Evrópu. Landbúnaðarmálin eru einnig afar erfið viðureignar en þau ætla ég ekki að rekja hér.

Því er alveg ljóst að þessi tíðindi eru ekki vegna þess að orðið hafi einhver sérstakur og góður árangur í þeim viðræðum sem hafa átt sér stað við fyrstu ríkin sex, heldur er hér um pólitískar ástæður að ræða. Þetta getur hugsanlega orðið til þess að stækkunarferlið muni tefjast eitthvað og dragast. Hins vegar er ljóst að mikill vilji er til þess í Evrópu, vegna þeirra aðstæðna sem hafa skapast að undanförnu, að sameina Evrópu með meira afgerandi hætti. Þar hafa atburðirnir í Kosovo rekið á eftir.

Nú hljótum við að spyrja okkur, Íslendingar, til hvers þetta muni leiða í samskiptum okkar við Evrópusambandið og samskiptum þeirra ríkja sem hafa sótt um við Evrópusambandið. Það er ljóst að hið pólitíska samráð mun aukast við þessi ríki. Þeim verður boðið til funda innan Evrópusambandsins til þess að taka þátt í umræðunni um sameiningu Evrópu framtíðarinnar. Væntanlega verður aukin hjálp við þau til að undirbúa sig fyrir væntanlega aðild einhvern tímann í framtíðinni.

Hv. þingmaður spurði hvernig ríkisstjórnin hygðist standa að þessum málum. Það kemur skýrt fram í stjórnarsáttmálanum að ríkisstjórnin hyggist fylgjast mjög vel með samrunaferlinu í Evrópu með hagsmuni íslensku þjóðarinnar í huga. Við í utanrrn. höfum unnið að stöðuskýrslu um ástand mála sem við hyggjumst leggja fyrir ríkisstjórn og í framhaldi af því yrði sú skýrsla lögð fyrir utanrmn. Alþingis. Í framhaldi af því yrði ákveðið hvað skuli gera með hana og hvort ástæða þyki til frekari vinnu í framhaldi af henni. Þessi stöðuskýrsla verður ekki tilbúin fyrr en í byrjun næsta árs en ég vænti þess að hún geti orðið grundvöllur málefnalegrar umræðu.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það verður stöðugt erfiðara að vinna eftir samningnum um Evrópska efnahagssvæðið vegna þess að fólksfjöldinn í EFTA-stoðinni verður stöðugt minni og miklu færri til að standa undir því en var í upphafi. Hins vegar gengur rekstur samningsins út af fyrir sig vel um þessar mundir en ef eitthvert ríkjanna fer út úr þessari stoð og gengur í Evrópusambandið mun það vissulega hafa veruleg áhrif. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Þetta eru allt saman atriði sem við þurfum að fjalla um og ég vænti þess að sú skýrsla sem við erum að vinna að í utanrrn. geti orðið góður grundvöllur fyrir þá umræðu.