Ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:40:34 (586)

1999-10-14 15:40:34# 125. lþ. 10.93 fundur 73#B ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það var sem mér sýndist í morgun að margur góður kratinn væri illa sofinn í dag. Illa haldinn af óskhyggju. Það er nú ekki á hverjum degi að Halldór Ásgrímsson, hæstv. utanrrh., vekur slíkar væntingar, slíkan spenning með þjóðinni að fólk sofi ekki af eftirvæntingu. Væntingarnar sem hæstv. utanrrh. hefur vakið með hv. málshefjanda, Sighvati Björgvinssyni, eru þær að nú sé að því komið að Íslendingar endurskoði hug sinn gagnvart Evrópusambandinu, haldi þangað inn og leggi þjóðina flata undir allt reglugerðarverkið.

Ég er þessu andvígur og hef áður fært rök fyrir afstöðu minni. Ég tel hins vegar mikilvægt að halda umræðunni vakandi og opinni og á lýðræðislegum grunni. Það má aldrei henda aftur að valtað verði yfir þjóðarviljann eins og þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins neituðu að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um hið Evrópska efnahagssvæði.