Ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:46:32 (589)

1999-10-14 15:46:32# 125. lþ. 10.93 fundur 73#B ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu# (umræður utan dagskrár), VS
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:46]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég tel ástæðu til þess að ræða þetta mál á hv. Alþingi í dag utan dagskrár og að það séu nokkur tíðindi ef teknar verða upp viðræður við sex þjóðir til viðbótar um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu þó ekki vilji ég kalla það að til standi að sameina Evrópu. Við getum ekki horft fram hjá því að allar breytingar í nánasta viðskiptaumhverfi Íslendinga eru þess eðlis að stjórnvöld verða að fylgjast vel með. Þetta er mikilvægt vegna hagsmuna okkar, vegna hagsmuna þjóðarinnar og vegna hagsmuna borgaranna.

Mín skoðun er sú að á einhverju stigi málsins þurfum við Íslendingar, ekki síst íslenskir stjórnmálamenn, að fara í gegnum þessa umræðu fordómalaust, um kosti þess og galla að eiga aðild að Evrópusambandinu. Ég gat ekki heyrt betur en hv. þm. Ögmundur Jónasson segði hér áðan, sem mér fannst nokkur tíðindi, að við þyrftum að halda umræðunni vakandi. (ÖJ: Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun.) Þess vegna sýnist mér að það geti innan tíðar skapast um það nokkuð breið samstaða að fara yfir þetta. Hjá hæstv. utanrrh. komu fram þær upplýsingar að unnið sé að skýrslu um málið í utanrrn. sem hlýtur að verða góður grunnur að framhaldinu og umræðunni sem þarf að fara fram.

Evrópska efnahagssvæðið hefur gagnast okkur ágætlega. Það er hins vegar nokkuð gallað fyrirkomulag. Við vitum að EFTA-þjóðirnar koma ekki nægilega vel að ákvörðunartöku í lagasetningu. Þetta vissum við alla tíð en horfðum fram hjá því vegna þess að við töldum að viðskiptahagsmunir okkar væru það mikilvægir í þessu sambandi.

Ég vil hins vegar taka af allan vafa og láta það koma fram að ég er ekki þeirrar skoðunar í dag að við eigum að gerast aðilar.