Ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 15:48:57 (590)

1999-10-14 15:48:57# 125. lþ. 10.93 fundur 73#B ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[15:48]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Dregið hefur til tíðinda í Evrópuumræðunni hér á landi og vonum seinna að margra mati. Nýjustu fréttir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í Brussel gefa ærið tilefni til að velta fyrir sér stöðu Íslands í Evrópu og gagnvart ESB. Og hv. þm. Ögmundur Jónasson, ég er vel út sofin og skýrt hugsandi.

Samfylkingin hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að Evrópumálin fái lýðræðislega og vandaða umfjöllun hér á landi. Slík umræða á m.a. að byggja á því að öll tiltæk sérfræðiaðstoð innan stjórnkerfisins, menntastofnana og hagsmunasamtaka sé nýtt í hennar þágu. Svo standa megi vörð um hagsmuni þjóðarinnar verða stjórnvöld að bregðast strax við. Við skulum átta okkur á því að aðstæður geta breyst og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er dýnamískur samningur.

Skilaboð fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB voru skýr á fundi hér á landi fyrir nokkrum vikum. Evrópusambandið hefur lítinn áhuga á að halda úti EES-samningi við örfá ríki í framtíðinni, hvað þá eitt.

Herra forseti. Það verður fróðlegt að lesa stöðuskýrslu hæstv. utanrrh. í ársbyrjun 2000 um stöðu okkar í Evrópu. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra sjái til þess að um hana fari fram ítarleg og málefnaleg umræða hér á Alþingi. Það er ekki seinna vænna að Íslendingar taki sér tak í Evrópuumræðunni. Samfylkingin mun ekki liggja á liði sínu í því efni. Hún mun gera sitt til þess að hér geti farið fram almenn og upplýst umræða um framtíð okkar í Evrópu.