Ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 16:00:16 (595)

1999-10-14 16:00:16# 125. lþ. 10.93 fundur 73#B ný viðhorf um aðild Íslands að Evrópusambandinu# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[16:00]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Til að svara því sem kom síðast fram hjá hv. þm. Sighvati Björgvinssyni þá veit ég ekki til þess að Framsfl. eða Sjálfstfl. hafi útilokað nokkuð í þessu sambandi. Ég held að enginn geti í reynd útilokað eitt né neitt. Menn verða að hafa þarna að leiðarljósi hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Við munum ekki einir ráða þessari ferð og það er það sem ég og ríkisstjórnin höfum lagt áherslu á.

Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því á næstunni hvernig fer í samskiptum okkar við Evrópusambandið út af Vestur-Evrópusambandinu því að við erum aukaaðilar að Vestur-Evrópusambandinu sem nú er hugmyndin að leggja niður og sameina Evrópusambandinu. Við höfum farið þess á leit við Evrópusambandið að stofnanaþáttur þess verði endurskoðaður vegna þessa samrunaferlis en þeir svarað okkur einfaldlega að það verði fyrst gert þegar og eftir að Vestur-Evrópusambandið hefur verið lagt niður og það sameinað Evrópusambandinu, þá muni þeir setjast niður með okkur og ræða það mál. Þetta er mjög alvarleg afstaða af hálfu Evrópusambandsins og við höfum mótmælt henni mjög ákaft og Norðmenn jafnframt. Það mun reyna á þetta mál mjög á næstu mánuðum og það er mikilvægt fyrir hv. þingmenn að fylgjast vel með því.

Ég tel hins vegar sjálfsagt að leggja fram skýrslu um stöðu mála þar sem við í utanrrn. reynum að leggja hlutlaust mat á stöðuna án þess að þar komi beinlínis inn pólitískar tillögur. Það er síðan hlutverk stjórnmálaflokkanna og Alþingis að taka endanlega afstöðu. Það geta embættismenn ekki gert en ég mun leggja áherslu á að þessi skýrsla verði sem best svo að hún upplýsi málið þannig að um það geti farið fram áframhaldandi málefnaleg umræða. Það getur enginn og vill enginn stöðva þá umræðu og ég er undrandi á því (Forseti hringir.) þegar því er lýst yfir að einhver vilji stöðva umræðu. Hver getur stöðvað umræðu í lýðræðinu á Íslandi? Ég veit ekki hver getur það.