Stofnun Snæfellsþjóðgarðs

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 16:14:43 (598)

1999-10-14 16:14:43# 125. lþ. 10.2 fundur 11. mál: #A stofnun Snæfellsþjóðgarðs# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[16:14]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur, um þessa tillögu. Ég er að sjálfsögðu hjartanlega sammála hv. þm. Hér er góð tillaga á ferðinni.

Hvað blasir við okkur Íslendingum í fjölmiðlum okkar í dag? Jú, 14 prófessorsstöður við Háskóla Íslands hafa verið kostaðar af aðilum í atvinnulífinu, eins og það er orðað. Stöður í læknadeild hafa t.d. verið kostaðar af lyfjaframleiðendum og innflytjendum. Tíu þúsund fermetra verslunarhúsnæði er tekið í notkun í Reykjavík og kaupmenn þar kaupa sig inn í dagskrá Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið leggst flatt fyrir kostunaraðilum og lætur dagskrána sína lönd og leið, ,,rúmsterar`` þar með fasta liði eins og ekkert sé sjálfsagðara.

[16:15]

Í Morgunblaðinu í dag lýsa norrænir blaðamenn áhyggjum sínum með þróunina hjá fjölmiðlum sem í auknum mæli eru farnir að liggja flatir fyrir kostunaraðilum og gróðasjónarmiðum. Við lesum um tannlækni sem sagður er stunda peningaþvætti á Íslandi og ýmsar aðrar fréttir sem ganga út á óheiðarlega fengið fé. Á okkur dynja auglýsingar sem hvetja til aukinnar neyslu, okkur sé nauðsynlegt að eiga þetta og við getum ekki komist af án hins. Græðgin er dásömuð og dýrkuð, enginn er maður með mönnum nema hann sé með fullar hendur fjár og búi á höfuðborgarsvæðinu. Þar er gósenlandið, þar grasserar góðærið.

Virðulegi forseti. Við þurfum mótvægi við þessar fréttir, mótvægi við aðgerðir peningavaldsins og gróðahyggjunnar. Við þurfum að vega upp á móti græðginni. Ein aðferðin til að gera það er að breyta verðmætamatinu. Við þurfum að leggjast á sveif með þeim sem vilja hefja önnur gildi til vegs. Liður í því er tillöguflutningur af því tagi sem liggur nú fyrir hv. Alþingi í formi þáltill. um stofnun Snæfellsþjóðgarðs.

Þess má geta, virðulegi forseti, að þann 10. mars 1999 samþykkti hv. Alþingi Íslendinga þál. um Vatnajökulsþjóðgarð. Hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta kanna, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, möguleika á að stofna Vatnajökulsþjóðgarð.

Umhverfisráðherra kynni Alþingi stöðu málsins á vorþingi árið 2000 með það í huga að unnt verði að stofna Vatnajökulsþjóðgarð á aldamótaárinu.``

Tillaga sú sem hér er til umfjöllunar um stofnun Snæfellsþjóðgarðs kemur í beinu framhaldi af tillögunni um Vatnajökulsþjóðgarð. Það má sjá að hér eru til umfjöllunar metnaðarfullar tillögur sem gætu gert það að verkum að hálendi okkar yrði ekki sundurskorið af skurðum og uppistöðulónum heldur varðveitt í þágu vistvænnar ferðamennsku, í þágu þjóðarinnar allrar sem á það skilið að fá notið þeirra auðæfa sem náttúra hálendisins hefur upp á að bjóða.

Hálendi Íslands er óumdeilanlega auðlind sem getur aðstoðað okkur við að breyta verðmætamati okkar. Aðstoðað okkur í að læra að meta gildi lífsins á nýjan hátt og hverfa frá græðgishugsjóninni yfir í aðrar hugsjónir. Við vitum það öll sem sitjum í þessum sal hvers virði það er að geta farið upp á ósnortið hálendið sem býr yfir þvílíkum víðáttum og töfrum að annað eins er hvergi að finna.

Virðulegi forseti. Tillaga sú sem hér er til umfjöllunar eykur verðmætagildi þjóðarinnar, eykur tilfinningu okkar fyrir gildi íslenskrar náttúru. Ég endurtek það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði á undan mér: Hér er um að ræða góða tillögu.