Könnun á læsi fullorðinna

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 16:22:29 (600)

1999-10-14 16:22:29# 125. lþ. 10.6 fundur 55. mál: #A könnun á læsi fullorðinna# þál. 17/125, Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[16:22]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir svohljóðandi tillögu til þál.:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta fara fram könnun á læsi Íslendinga. Könnunin verði gerð á árunum 2000 og 2001 og taki til aldurshópanna 18--67 ára. Við undirbúning og framkvæmd verði haft samráð við aðila vinnumarkaðarins.``

Meðflutningsmenn mínir að þessari þáltill. eru hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, Hjálmar Árnason og Kolbrún Halldórsdóttir.

Það er svo, herra forseti, að í rannsókn á duldu ólæsi meðal Dana á aldrinum 18--67 ára frá árinu 1995, en þá er verið að miða við þann hóp sem er hvað virkastur á vinnumarkaði, kom m.a. fram að um 12% þeirra sem í úrtakinu lentu áttu í umtalsverðum lestrarerfiðleikum og 23% til viðbótar lentu í erfiðleikum við lestur ákveðinna texta. Ekki er vitað nákvæmlega hve margir fullorðnir hérlendis stríða við þennan vanda sem jafna má við alvarlega fötlun í nútímasamfélagi. Miðað við þær kannanir sem til eru á stöðu barna og ungmenna og samanburður við sömu aldurshópa hjá Dönum má þó gera ráð fyrir að niðurstöður úr sambærilegri könnun gerðri hér á landi gæfi álíka niðurstöðu, að um 20 þúsund Íslendingar á aldrinum 18--67 ára gætu átt í umtalsverðum lestrarerfiðleikum.

Flestir Íslendingar ná því að verða læsir á barnsaldri. Það er hins vegar alltaf tiltekinn fjöldi úr hverjum aldurshópi sem ekki nær tökum á lestri í skóla eða þeirri færni sem þarf til að kallast læs, hvað þá vel læs. Í inngangi að skýrslu um læsi íslenskra barna frá 1993 er tekið fram að engar rannsóknir séu til, svo að vitað sé, á læsi fullorðinna hér á landi. Sú rannsókn sem skýrslan greinir frá leiðir hins vegar í ljós að 5--10% 14 ára unglinga eigi í verulegum erfiðleikum við að skilja fræðsluefni sem þeir lesa auk þess sem líkur benda til að um 10% til viðbótar skilji textann ekki nægilega. Upplýsingar sem Lestrarmiðstöð Kennaraháskóla Íslands hefur aflað með prófunum á nemendum í 9. bekk grunnskóla benda til þess að um 15% nemenda séu í áhættu með tilliti til dyslexíu og að um 10% eigi við alvarlegan lestrar- eða stafsetningarvanda að etja.

Þeir sem starfa í grunnskólum hafa reynslu af því að í 20--30 barna bekkjardeild megi að jafnaði gera ráð fyrir að 2--3 börn eigi við alvarlegan lestrarvanda að etja. Um gæti verið að ræða um 4.000 grunnskólanemendur á landinu öllu. Skólarnir reyna að taka á lestrarvanda nemenda sinna með sérkennslu en aðstæður þeirra til þess eru mismunandi og umtalsverður hópur útskrifast úr grunnskóla árlega án þess að hafa náð fullnægjandi tökum á lestri og/eða skrift. Ef þessir einstaklingar reyna við framhaldsskólanám er hætt við að þeir falli fljótt út úr slíku námi. Flestir framhaldsskólar kanna orðið getu nemenda sinna í lestri og stafsetningu og reyna að bregðast við, enda er það samkvæmt lögum að mæta nemendum þar sem þeir eru staddir. Kannanir hafa gefið vísbendingar um að allt að fimmtungur framhaldsskólanema eigi í lestrarörðugleikum.

Það vakti athygli, herra forseti, fyrir nokkrum árum þegar Iðnskólinn í Reykjavík tók upp námskeið í lestri fyrir nemendur skólans. Þau voru tekin upp í kjölfar könnunar sem gerð var í lestri og lesskilningi. Sú kennsla sem þar hefur farið fram hefur leitt í ljós að unnt er að ná árangri með lesþjálfun þótt viðkomandi sé kominn af barnsaldri og rannsóknir hafa jafnframt sýnt að framhaldsskólanemar geta náð verulegum árangri í lestri með marksvissri þjálfun. Ætla má að sama eigi við um fullorðið fólk.

Í nýrri skólastefnu er stefnt að því að taka á málefnum barna með ,,sértæka lesröskun``, eins og það er kallað, með lesskimun og greiningu við upphaf grunnskólagöngu. Það er góður ásetningur þó að ekki sé ljóst hvernig framkvæmdin verður en mun með aukinni sérkennslu og hærra hlutfalli menntaðra kennara í grunnskólunum verða til þess að fleiri börn fá þjónustu við hæfi og auka þannig líkur á því að fleiri börn ljúki grunnskóla betur læs.

Nú þegar aldamótin nálgast erum við að ganga inn í það sem kallað hefur verið upplýsingasamfélag. Það byggist á mikilvægi upplýsinga í leik og starfi og í allri framþróun, sem og nýtingu margvíslegrar tækni til að svo megi verða. Mikilvægt er að fólk hafi færni til að takast á við ný og fjölbreytt verkefni sem slíkum þjóðfélagsbreytingum fylgja. Forsenda þess að geta verið þátttakandi í slíkum breytingum er að geta lesið og er það mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr. Vegna nýrrar tækni og krafna um meiri lestur og skráningu alls kyns upplýsinga detta einstaklingar út af vinnumarkaði og komast ekki inn aftur, einstaklingar sem gátu tekist á við ýmis störf sem ekki kröfðust lestrar og skráningar með sama hætti og í jafnríkum mæli og á tölvuöld. Að vera læs er þannig einn af undirstöðuþáttum mannréttinda og jafnframt er það krafa sem þjóðfélagið gerir til þegna sinna í æ ríkari mæli.

Lengi hefur verið goðsögn á Íslandi að allir séu læsir. Bókmenntaþjóðin vill trúa því að hún sé læs og lesi mikið. Það á þó ekki við um alla landsins þegna. Ekki fá allir við lestur notið þeirra bókmenntaperlna sem gera okkur að þjóð né alast öll börn upp á heimilum þar sem bækur skipa öndvegi. Þegar barnafræðsla hófst og langt fram á þessa öld var gert ráð fyrir að börn kæmu læs að heiman þegar þau hæfu grunnskólanám. Gamlir kennarar minnast þess þó að misbrestur hafi orðið á því og þá, eins og nú, gerðist það að ungmenni luku skólagöngu án þess að ná tökum á lestri. Á meðan samfélagið var lítt tæknivætt og margar hendur þurfti til framleiðslunnar var það ekki jafnalvarlegt fyrir einstaklinginn þótt hann kynni ekki að lesa eða væri treglæs. Þetta er gerbreytt. Nú er læsi grundvallarforsenda þess að þegnarnir fái þrifist í samfélagi sem tekur örum breytingum og á vinnumarkaði þar sem einstaklingar þurfa sífellt að takast á við nýjar aðstæður vegna breyttrar tækni og viðurkennt er að menntun lýkur aldrei. Hvaða möguleika á ólæs einstaklingur á slíkum vinnumarkaði?

Flutningsmenn þessarar tillögu leggja hins vegar áherslu á að læsi fullorðinna Íslendinga verði kannað svo að traust vitneskja liggi fyrir um hve margir eiga við þennan alvarlega vanda að etja. Í greinargerðinni er vísað til könnunar Dana á duldu ólæsi þar í landi. Flutningsmenn telja að þá könnun mætti nota sem fyrirmynd. Við ákvarðanir um hvernig við verður brugðist ætti að líta til þess hvað hefur verið gert til að kenna fullorðnu fólki að lesa, bæði hér og annars staðar.

Herra forseti. Þessi tillaga var fyrst flutt á 123. þingi en varð ekki útrædd. Eigi að síður fór hún út til umsagnar og átta aðilar sendu inn umsögn, þar á meðal Menningar- og fræðslusamband alþýðu, Hitt húsið, Félag náms- og starfsráðgjafa, Lestrarmiðstöð Kennaraháskólans, Iðnskólinn í Reykjavík o. fl.

Segja má, herra forseti, að allir þessir aðilar hvetji til þess að tillagan verði samþykkt, að farið verði í aðgerðir sem þessar. Þarna er um að ræða þá sem gerst mega vita hvernig raunveruleikinn er í þessum efnum. Eðlilegt væri að við undirbúning og framkvæmd könnunar á læsi fullorðinna yrði haft náið samband við aðila vinnumarkaðarins því að ljóst má vera að til þeirra kasta kæmi með einhverjum hætti þegar niðurstöður liggja fyrir og ákvarðanir verða teknar um hvernig við skuli brugðist.