Könnun á læsi fullorðinna

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 16:31:13 (601)

1999-10-14 16:31:13# 125. lþ. 10.6 fundur 55. mál: #A könnun á læsi fullorðinna# þál. 17/125, SÞ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[16:31]

Sturla D. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég fagna þessari till. til þál. um könnun á læsi fólks á aldrinum 18--67 ára. Eins og fram kemur í greinargerðinni búum við yfir talsverðum upplýsingum um lestrarvanda grunnskólanema. Það er rétt sem kemur þar fram að enn útskrifast allt of margir úr grunnskóla án þess að hafa náð viðhlítandi tökum á lestri. Margan skólann hefur hreinlega skort úrræði í þeim efnum.

Í greinargerðinni er einnig minnst á námskeið Iðnskólans í lestri. Þetta er orðið að námsefni í dag. Þetta námsefni sem kallast Lestu betur og er eftir þá Guðna Kolbeinsson og Fjölni Ásbjörnsson er sérsniðið fyrir nemendur á framhaldsskólastigi. Nú hafa sömu höfundar útbúið námsefni sem er eingöngu ætlað fyrir grunnskólanema. Það kallast Lestu nú. Ég fullyrði að þetta námsefni hefur skilað miklum og góðum árangri.

Í þessu sambandi vil ég einnig minna á nýtt námsefni sem kennarar við Njarðvíkurskóla í Reykjanesbæ hafa samið til að auka lestrarhraða. Þá má nefna Hraðlestrarskólann sem margur landinn hefur gengið í gegnum og líkað vel.

Herra forseti. Að lokum vil ég taka undir með hv. flm. Svanfríði Jónasdóttur að þörfin fyrir að vera læs og skrifandi hefur líklega aldrei verið meiri en einmitt nú. Oft var þörf en nú er nauðsyn.