Könnun á læsi fullorðinna

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 16:40:57 (605)

1999-10-14 16:40:57# 125. lþ. 10.6 fundur 55. mál: #A könnun á læsi fullorðinna# þál. 17/125, Flm. SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 125. lþ.

[16:40]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég vil gjarnan koma upp aftur til að þakka fyrir þá jákvæðni í garð þessa málefnis sem hér hefur komið fram og eins til að bæta þá í varðandi umfjöllun málsins. Ég vek athygli á því vegna orða hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur að minni hlutinn í menntmn. er allur mættur hér og er sammála þessari tillögu eins og ég geri reyndar ráð fyrir að stjórnarliðar í nefndinni séu einnig vegna þess að hér er um slíkt stórmál að ræða og þverpólitískt að því verður vart trúað að menn leggist ekki allir á árina til að samþykkja þessa tillögu og hrinda könnuninni í framkvæmd.

Það er rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefnir að rætt er um að það verði síðan að bregðast við vegna þess að því miður þurfum við að gefa okkur að niðurstaða könnunarinnar verði þannig að það verði að bregaðst við. Það er einfaldlega svo að allar kannanir sem til eru á læsi barna og ungmenna á Íslandi eru það hliðstæðar niðurstöðum kannana sem farið hafa fram í nágrannalöndunum að því miður er engin ástæða til að ætla að niðurstaða hér af könnun á læsi fullorðinna verði önnur en þar. Ég held hins vegar að við verðum að gera þessa könnun til þess að eitthvað verði gert í málinu einfaldlega vegna þess að Íslendingar trúa því ekki fyrr en þeir sjá það svart á hvítu að stór hópur fullorðins fólks sé ólæs eða treglæs. Við höfum svo lengi búið við þá goðsögn að þjóðin sé læs og það hafi hún verið í gegnum aldirnar. Það er því miður ekki svo og við vitum að lestrargeta einstaklinga hefur haft veruleg áhrif á félagslega stöðu þeirra og líðan. Það ástand er að versna vegna þess, eins og hér hefur komið fram, þá er það margbrotna þjóðfélag sem við búum nú í ekki beinlínis vettvangur fyrir fólk sem er ólæst eða illa læst til að hasla sér völl á. Þess vegna er svo brýnt að tekið verði á þessum vanda, að hann sé viðurkenndur, að það fólk sem á við erfiðleika að etja geti viðurkennt erfiðleika sína vegna þess að það hefur líka verið eitt af því sem hefur verið svo erfitt, að þeir sem hafa verið illa eða ekki læsir í hópi fullorðinna hafa átt erfitt með að horfast í augu við það vegna þess að þetta er ekki viðurkennt.

Það er gaman að segja frá því hér að fullorðinn einstaklingur knúði dyra í Lestrarmiðstöð Kennaraháskólans fyrir nokkrum árum síðan. Hann hafði heyrt af þessari lestrarmiðstöð og taldi að þarna væri loksins kominn kostur fyrir sig. Starfsfólk í lestrarmiðstöð hefur ekki það hlutverk að setjast niður og kenna fólki að lesa en þessi einstaklingur lét hvorki laust né fast. Hann krafðist þess að hann fengi þjónustu og auðvitað fékk hann hana á endanum. Auðvitað var vikið frá reglunni og þörfum þessa einstaklings var mætt. Þetta segir okkur kannski hvað það er mikilvægt að þessir valkostir og viðurkenning séu fyrir hendi.

Eins og hv. þm. Sturla Þorsteinsson gat um er sem betur fer heilmikið verið að gera hvað varðar kennsluefni fyrir skóla, kennsluefni sem beint er að börnum og ungmennum og við bindum vonir við það að með vaxandi þekkingu takist að kenna sem flestum, vonandi einhvern tíma öllum, að lesa og takast þar með á við nútímasamfélag.

Við lesum líka um það að í öðrum löndum er verið að takast á við sambærilegt vandamál. Það kom fram í fréttum ekki fyrir löngu að David Blunkett, menntamálaráðherra Breta, er búinn að leggja heiður sinn að veði gegn því að 80% breskra drengja verði læsir, en á milli 60--70% þeirra munu vera það nú. Þar í landi er verið að fara í sérstakt átak sem beinist m.a. að þeim bókmenntum sem skólarnir eru með í umferð. Verið er að endurnýja þann bókakost og yngja upp ef það mætti verða til þess að laða drengi frekar að bókum en verið hefur, drengi, vegna þess að það er líka viðurkennd staðreynd að ólæsi er mun útbreiddara í hópi drengja en stúlkna. Eitt af því sem komið hefur í ljós þegar menn skoða stöðu drengja og stúlkna í grunnskólum er að stúlkurnar standa sig betur í námi þó að félagsleg staða þeirra kunni að ýmsu leyti að vera erfiðari.

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Við bindum vonir við það að tillagan verði samþykkt og að í kjölfarið verði gripið til þeirra aðgerða sem duga.