Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 15:14:51 (607)

1999-10-18 15:14:51# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, MF
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[15:14]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. að umræðan um að maki megi nýta að fullu ónýttan persónuafslátt og að hann verði að fullu millifæranlegur er ekki ný af nálinni. Þetta ákvæði hefur staðið óbreytt um töluverðan tíma og kannski ekki síst vegna þess að þótt umræðan hafi verið mikil hefur líka verið uppi mikill ágreiningur um hvort þetta sé yfirleitt rétt, ekki síst með tilliti til þess að uppi hafa verið skoðanir um að þessi ráðstöfun ýti undir kynbundinn launamun sem er til staðar í þjóðfélaginu. Nýlegar skýrslur frá Verslunarráðinu sýna svo ekki verður um villst að þar hefur lítið gengið í þá átt að laga launamun á milli kynja á undanförnum árum. Þess vegna hafa verið afar skiptar skoðanir innan stjórnmálaflokka og reyndar innan verkalýðshreyfingarinnar um hvort þetta sé rétt aðgerð eða ekki.

[15:15]

Ríkisstjórnin hefur nú tekið ákvörðun um að breyta þessu þannig að leggja fram fjármagn, 400 milljónir á næstu fjórum árum, til þess að leiðrétta þarna ákveðinn ágalla á skattkerfinu ef miða má við ræðu sem hæstv. fjmrh. flutti þegar hann mælti fyrir fjárlagafrv. Þá sagði hæstv. fjmrh., með leyfi forseta:

,,Því ber fremur að beina athyglinni í þessum efnum að sérstökum leiðréttingum eða augljósum ágöllum í skattkerfinu og vinna bug á þeim. Tillaga ríkisstjórnarinnar um að hækka millifæranlegan persónuafslátt hjóna eða sambýlisfólks í áföngum á kjörtímabilinu, sem liggur nú þegar sem frv. á borði þingmanna, er dæmi um þetta og fleiri slík atriði verða til athugunar.``

Í sömu ræðu, í sama kafla, sagði hæstv. ráðherra að skattbreytingar ættu að stuðla að auknum stöðugleika í efnahagslífinu og bæta lífskjör heimilanna.

Virðulegi forseti. Maður hlýtur að velta því fyrir sér þegar þessi tillaga er sett fram hverjum hún kemur til góða og hvernig verði staðið að framkvæmdinni, þ.e. hverjum þessi litla leiðrétting sem hér er gerð, sem vissulega getur verið jákvæð, nýtist helst.

Hæstv. ráðherra kom inn á það áðan að það væri fyrst og fremst ungt barnafólk eða fólk með lágar tekjur sem nýtti í dag ónýttan millifæranlegan persónuafslátt, þ.e. þessi 80%, að hluta eða öllu leyti. Hjónafólk og þeir sem eru í staðfestri samvist og þeir sem eru í sambúð og telja fram saman eru í kringum 115 þús. samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Í kringum 115 þús. hjón og sambúðarfólk telja fram saman. Þeir sem hafa nýtt að hluta eða öllu leyti þessi 80%, þessa heimild sem hefur verið til staðar, eru 19.022. Karlar frá maka 16.801, konur frá maka, 2.221.

En það kemur jafnframt fram í upplýsingum frá ríkisskattstjóra að framteljendur sem geta ekki nýtt sér þær breytingar sem hér eru lagðar til, eru einstæðir foreldrar. Einstæðir foreldrar sem telja fram á landinu eru 8.682. Oft og tíðum er það fólk með mjög þunga framfærslubyrði og umönnunarþörf inni á heimili er mjög mikil. Það er ljóst að ekki mjög stór hluti þeirra sem telja fram saman nýtir að hluta eða öllu leyti þessa heimild um ónýttan persónuafslátt og ekki er víst, miðað við þær tölur sem lagðar eru fram sem fskj. með frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn., því að mér sýnist --- hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef það er ekki rétt --- að ekki sé gert ráð fyrir að fleiri nýti sér þessa heimild eftir að hún er að fullu komin til framkvæmda heldur en gera það í dag. Það verði því um mjög svipaðan hóp að ræða, þ.e. 19 þús. hjón, fólk í sambúð eða staðfestri samvist, því mér sýnast þessar 400 millj. eingöngu vera uppreiknuð hækkun á þeirri tölu sem þegar er nýtt í þessu tilviki. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef það er ekki rétt.

Í grg. með frv. kemur ekki fram --- þó reynslan af þessu ákvæði sé orðin ansi löng --- hvernig tekjudreifing þeirra sem hafa nýtt sér ónýttan persónuafslátt maka er. Það kemur ekkert fram um hvernig ónýttur persónuafsláttur skiptist eftir tekjum hjóna og sambýlisfólks og þá ekki heldur hvort um er að ræða hjón eða sambýlisfólk með börn eða án barna. Þetta eru upplýsingar sem við í nefndinni hljótum að fara fram á að fá áður en teknar verða ákvarðanir um það hvort frv. verði afgreitt óbreytt eða með breytingartillögum.

Hvert er markmið frv.? Ef markmiðið með frv. er að bæta fyrst og fremst kjör þeirra sem minnstar hafa tekjurnar eða hjóna þar sem annar aðilinn er í skóla eða að umönnunarþörfin á heimilinu er mjög mikil og þung, t.d. vegna margra barna eða veikinda aðstandenda eða barna, ef það er ætlun hæstv. ríkisstjórnar að bæta sérstaklega kjör þessara hópa, þá koma engar upplýsingar fram í grg. frv. sem staðfesta að þetta sé besta leiðin.

Það er mjög sérkennilegt að á sama tíma og hér er talað um að þetta nýtist þeim sem minnstar hafa tekjurnar og þetta komi þeim helst til góða og að það þurfi að stuðla að bættum lífskjörum heimilanna í landinu, þá liggja fyrir upplýsingar um aðrar og meira afgerandi aðgerðir þessarar hæstv. ríkisstjórnar, þ.e. skerðingu á barnabótum en barnabætur koma fjölskyldufólki með þunga framfærslubyrði sannanlega helst til góða. Barnabæturnar hafa verið skertar verulega á undanförnum árum. Samkvæmt upplýsingum sem koma fram á fréttavef ASÍ er staðan sú að 1995 voru framlög barnabóta um 1,05% af vergri landsframleiðslu en nú 0,53% af vergri landframleiðslu. Það þýðir að á þessum árum hafa barnabæturnar verið skertar um yfir 30%.

Má vera að það sé vegna þess að tekjutengingunni var breytt og að tekjur hjóna hafa aukist. Því neitar enginn að orðið hefur veruleg launahækkun hjá stórum hópi þjóðarinnar og má vera að barnabæturnar skerðist vegna þess. En á sama tíma hefur kaupgeta þessa fólks verið skert verulega, sérstaklega á þessu ári. Þar koma til m.a. ýmsar ráðstafanir eða ákvarðanir ríkisstjórnarinnar.

Við umræðu um stefnuræðu hæstv. forsrh. komu fram þær upplýsingar frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að á síðustu örfáum árum hefðu um 14 þús. heimili sem áður nutu barnabóta, misst þær.

Ef ætlunin með skattbreytingum er að stuðla að bættri afkomu heimila og kannski ekki síst barnafólks og þeirra sem eru með þunga framfærslubyrði þá dreg ég í efa að þetta sé besta leiðin, miðað við þær upplýsingar sem við höfum. Ég minni á að til er mjög stór hópur einstæðra foreldra sem engin skil eru gerð í frv. eða grg. og ekkert er um það hvort það mætti hugsa sér það þannig að einstætt foreldri gæti sótt um einhvers konar margfeldisáhrif á sinn persónuafslátt vegna sérstakra aðstæðna. Það er ekkert um það í frv. Það viðgengst ákveðin mismunun í þessum efnum í okkar skattalöggjöf. Við þurfum að huga vel að því að þarna verði um jafnari rétt einstaklinga að ræða.

Í skýrslu sem skattanefnd ASÍ og BSRB gaf út í september 1999 er aðeins farið inn á það hverju þessar breytingar muni skila til launafólks og ég ætla, með leyfi forseta, að fara aðeins yfir það. Þar er sérstakur kafli sem heitir Yfirfærsla á persónuafslætti hjóna. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Eins og fram kemur í kafla 1 hefur ríkisstjórnin ákveðið að persónuafsláttur maka verði millifæranlegur að fullu hjá hjónum og sambýlisfólki. Krafan um yfirfæranlegan persónuafslátt milli maka hefur verið mjög hávær frá því að staðgreiðslukerfinu var komið á. Samkvæmt niðurstöðum úr skattalíkani ASÍ og BSRB kostar aðgerðin rúmlega hálfan milljarð króna miðað við tekjur ársins 1997.

Ef annað hjóna er tekjulaust, þá munar þessi aðgerð hjónin að hámarki 4.127 krónur á mánuði. Til þess þurfa tekjur þess sem er útivinnandi þó að vera hærri en sem nemur tvöföldum skattleysismörkum, þ.e. 126.772 krónur á mánuði. Ef tekjurnar eru lægri eru þær undir skattleysismörkum og hluti persónuafsláttar makans nýtist ekki.

Til þess að ávinningur hjónanna verði 4.127 krónur þarf makinn að vera tekjulaus. Með orðinu ,,tekjulaus`` er átt við að makinn fái hvorki launatekjur, né greiðslur úr lífeyrissjóðum, almannatryggingum eða atvinnuleysistryggingasjóði. Ef makinn hefur einhverjar tekjur en er þó undir skattleysismörkum, þá er ávinningur hjónanna af aðgerðinni alltaf minni en 4.127 krónur. Dæmi: Ef makinn er með 20.000 krónur í tekjur á mánuði og sá sem er útivinnandi er með tekjur yfir 126.772 kr., þá er ávinningur hjónanna 3.092 kr. á mánuði.

Málið þarf þó að skoða út frá fleiri hliðum. Mikilvægt er að menn geri sér grein fyrir að ekkert fæst fyrir ekki neitt í þessum efnum frekar en öðrum. Þann hálfa milljarð sem aðgerðin kostar þarf að fjármagna með einum eða öðrum hætti. Það er auðvitað hægt með því að spara í ríkisrekstrinum, en það er líka hægt með því að herða skattheimtu á öðrum sviðum. Sú aðferð sem notuð hefur verið síðustu árin til að fjármagna skattbreytingar er að láta skattleysismörkin (og persónuafslátt) síga miðað við launaþróun í landinu. Við það aukast tekjur ríkissjóðs mjög. Til að fjármagna hálfan milljarð króna geta stjórnvöld t.d. ákveðið að hækka persónuafslátt 300 krónum minna en launahækkanir í þjóðfélaginu gefa tilefni til.``

Til er önnur aðgerð sem aðeins er minnst á en ríkisstjórnin hefur því miður ekki afgreitt frá sínu borði enn. Mér hefur heyrst að þar sé ekki um samkomulag að ræða. En hún gæti skilað sér til þeirra hópa sem við hljótum að leggja fyrst og fremst áherslu á, þ.e. barnafólkið, fjölskyldufólkið, hvort heldur það hefur meðaltekjur eða lágar. Það þarf að bæta verulega hag fjölskyldufólks í landinu. Segja má að sú aðgerð sem hér er lögð til sé í sjálfu sér ekki hluti af neinni heildarfjölskyldustefnu. Hún er það ekki. Hún mun ekki nýtast á sama hátt og ef barnabæturnar hefðu verið látnar halda sér, miðað við það sem áður var --- ég tala nú ekki um ákveðna leiðréttingu sem þarf að gera í þeim efnum --- og ef tillaga Framsfl. um barnakortin hefði orðið að veruleika. En það er tillaga sem ekki er búið að afgreiða innan ríkisstjórnarinnar, a.m.k. hefur maður heyrt mjög misvísandi samtöl í fjölmiðlum, annars vegar við hæstv. fjmrh. og hins vegar við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, þingflokksformann Framsfl.

Það er aðeins fjallað um barnakortin sem aðgerð í þessari skýrslu ASÍ og BSRB um skattamálin. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fyrir alþingiskosningarnar í vor setti Framsóknarflokkurinn fram áætlun um upptöku svokallaðra barnakorta. Í framkvæmd voru barnakortin hugsuð eins og skattkort, þ.e. upphæðin á skattkortinu er notuð sem viðbót við persónuafslátt. Launamaðurinn afhendir launagreiðanda kortið og fær afslátt frá staðgreiðslu skatta. Ónýttur afsláttur er greiddur út. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar ,,Í fremstu röð á nýrri öld`` stendur m.a. ,,Meðal annars verði dregið úr tekjutengingu í barnabótakerfinu, t.d. með útgáfu sérstakra barnakorta eða öðrum sambærilegum aðgerðum.````

[15:30]

Aðrar sambærilegar aðgerðir hafa hvergi sést enn. Ef við horfum til þess fólks sem hefur þyngsta framfærslubyrði og umönnunarbyrði á heimili ef má orða það svo þar sem um börn er að ræða eða veikindi aðstandenda eða annað, þá er þessi aðgerð ekkert endilega gerð til að tryggja afkomu þessa hóps. Við hljótum að skoða það alveg sérstaklega með tilliti til þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur boðað og gleymum því ekki meðan lagt er til að þessi ónýtti persónuafsláttur verði að fullu millifæranlegur að skerðing barnabóta byrjar æðifljótt í tekjuskalanum. Hjá einstæðu foreldri byrja bæturnar að skerðast þegar skattstofninn er 48.732 kr. á mánuði og þegar skattstofn hjóna er 97.464 kr. á mánuði byrja barnabæturnar að skerðast.

Þetta er og verður alltaf spurning um markmið og leiðir. Samfylkingin hefði talið eðlilegra að forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar væri að bæta hag barnafólks, vera með heildstæða fjölskyldustefnu og taka til endurskoðunar þá miklu skerðingu sem hefur orðið á barnabótunum. Sú endurskoðun hefði átt að liggja fyrir í upphafi þings þannig að við værum fyrst og fremst að hugsa um fjölskyldur þar sem börn eru eða veikindi eða aðrir erfiðleikar á heimilum. Með þessari aðgerð gleymist alveg ein fjölskyldugerðin þannig að ekki er hægt að tala um þetta sem hluta af heildstæðri fjölskyldustefnu því að fjölskyldur eru afar mismunandi. Það eru einstæðir foreldrar með börn. Þeir munu ekki njóta þessa í nokkru en eru þó kannski þeir sem þurfa helst á því að halda.

Við munum vissulega skoða þetta frv. vel, ég efast ekkert um það, í hv. efh.- og viðskn. og fá þá þeim spurningum svarað sem ekki er svarað í greinargerð frv. og við hljótum að kalla til fulltrúa samtaka launafólks í landinu vegna þess að þrátt fyrir þá miklu umræðu sem þar hefur verið í gegnum tíðina um að fullnýta ónýttan persónuafslátt, þá hafa aldrei verið gerðar neinar samþykktir þar um. Þær eru ekki til staðar og það er vegna þess að menn hafa ekki verið vissir um að hægt væri að ganga þannig frá því að það nýttist þeim mest sem á þyrftu að halda og væri þá hægt að nýta þá peninga sem til þessa verkefnis fara betur í þágu þeirra þar sem þörfin er mest.

Virðulegi forseti. Ég tel að við þurfum að fá þeim spurningum svarað frá ríkisskattstjóra hvernig tekjudreifingin er hjá þeim 19 þúsund aðilum sem nýta þetta í dag af þeim 115 þúsund sem telja fram saman samkvæmt upplýsingum sem koma frá skattstofnunni. Við þurfum einnig að fá upplýsingar um tekjudreifinguna og fjölda barna, um umönnunarbyrði og eins hvort um er að ræða skólagöngu eða aðra þætti sem vissulega eru hvetjandi til þess að millifæranlegur persónuafsláttur verði 100%. Það geta verið þær aðstæður að fullkomlega eðlilegt væri að taka þær til athugunar. En fyrst og síðast hljótum við að skoða þetta í samhengi við aðrar ráðstafanir sem gerðar eru í málefnum fjölskyldunnar. Við hljótum að fara fram á það að spurningum einstæðra foreldra um hvað á að gera til að bæta kjör þeirra til jafns á við það sem kemur fram í frv. verði svarað af ríkisstjórninni og hver séu framtíðaráformin gagnvart barnabótum eða afgreiðslunni til barnafólks og skoða þetta síðan í heild sinni.