Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 15:40:10 (611)

1999-10-18 15:40:10# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[15:40]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki með neinar tillögur um annað en að benda á að ef framlögin væru ekki aukin í þetta verkefni umfram það sem gert er ráð fyrir í frv. sjálfu og ef miðað væri sérstaklega við hópa sem á þyrftu að halda vegna mikillar umönnunarþarfar á heimili, tekjur lágar, skólanám eða ýmsar aðrar aðstæður þá gæti verið að með því að einskorða sig við þá hópa mætti flýta breytingunni en þó innan þess fjárhagsramma sem frv. gerir ráð fyrir því að ég held að mjög nauðsynlegt sé að halda honum.

Hins vegar eru 400 milljónir fyrirhugaðar í þetta verkefni. Það kostar líklega um 2 milljarða að framkvæma barnakortatillögu Framsfl. og með því að koma einum fjórða af henni í framkvæmd þá kostar það sömu upphæð. Menn hljóta því að velta fyrir sér hvort er fjölskylduvænni ráðstöfun.