Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 15:41:34 (612)

1999-10-18 15:41:34# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[15:41]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Margrét Frímannsdóttir fjallaði minnst um fyrirliggjandi frv. en tók þeim mun meira til máls um skattalega stöðu fjölskyldunnar og er það vel. Hún segir barnabætur hafa lækkað og ber fyrir sig merka skýrslu ASÍ.

Barnabætur sem eiginlega ættu að heita ómegðarbætur taka mið af því sjónarmiði að vera tekjutengdar og er ætlað að hjálpa þeim fjölskyldum sem hafa lágar tekjur en mikla ómegð. Þessi tekjutenging kom inn aðallega fyrir tilstuðlan Alþfl. á sínum tíma sem núna er genginn í heilu lagi inn í flokk hv. þm.

Tekjur hafa hækkað sem aldrei fyrr og það veldur því að sífellt færri falla í þann flokk að vera með lágar tekjur og mikla ómegð og þurfa þar af leiðandi ekki á þeim bótum að halda sem Alþfl. vildi koma inn á sínum tíma til að bæta ómegðina. Er það slæmt, hv. þm., að tekjurnar hafi hækkað svona mikið og væri betra að þær hefðu ekki hækkað?