Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 16:47:27 (629)

1999-10-18 16:47:27# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[16:47]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þetta, þetta er svo fullkomlega ónýt umræða að það skilar engu að karpa um þetta. En það liggur bara þannig að stjórnarandstaðan metur sjálf hvernig hún bregst við stjórnarfrumvörpum, hvaða tíma hún tekur sér í að skoða þau og hvenær hún birtir sína afstöðu og hver hún verður. Það er nú bara einfaldlega þannig. Við ráðum því sjálf.

Hins vegar get ég skotið því að hv. þm. að það liggur alveg prýðilega á mér. Ég hef gaman af svona umræðum en mér leiðast þó tilburðir manna til að afvegaleiða þær eins og hv. þm. er að reyna að gera, þ.e. að gera þetta að aðalatriði málsins en ekki þá efnislegu umræðu sem hér var búin að fara fram og var ágæt þangað til hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson steig í ræðustól og varð fyrstur manna til að koma inn í umræðuna með hluti sem voru algjörlega óefnislegir, skiluðu engu í röksemdafærslu, í málflutningi með eða á móti, skiluðu engum nýjum sjónarmiðum inn í þetta mál, ekki neinu. Þetta voru tilburðir til þess af hálfu stjórnarþingmanns að reyna að gera lítið úr málflutningi stjórnarandstöðunnar, ósköpleg ómerkilegir, svo ég noti það íslenska orð sem mér kemur fyrst í hug.

Hitt ætlaði ég svo að gera þó að áhugi minn hafi að vísu minnkað á því hafandi sagt þetta, þ.e. að taka að einu leyti undir með hv. þm., því að ég held að það sé langur vegur á milli þess að tekjutengja barnabætur að fullu, eins og því miður það mikla óhappaverk varð sem gert var í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þm. langar nú sem mest að styðja, og hins að hafa þær algjörlega ótekjutengdar. Það hef ég alltaf sagt. Ég hef ævinlega fjallað um þessi mál þannig að gera þar mikinn greinarmun á.

Staðreyndin er sú að að mörgu leyti var það ágætt kerfi sem komið var hér upp. Það voru ótekjutengdar barnabætur, ákveðinn grunnstuðningur, og viðbótarstuðningur til tekjulágra barnafjölskyldna. Enda hét það barnabótaauki. Ógæfan hófst þegar menn fóru að flytja fjármuni úr ótekjutengda grunninum yfir í barnabótaaukann. Smátt og smátt gengu menn svo langt í því að að lokum var hann orðinn tekjutengdur að fullu.

Nú segja menn: ,,Það voru mistök. Nú langar okkur aftur til baka.`` En þeim hefur að vísu dottið það snjallræði í hug að kalla það kort.