Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 17:06:46 (635)

1999-10-18 17:06:46# 125. lþ. 11.5 fundur 5. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (persónuafsláttur maka) frv. 102/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[17:06]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Þrátt fyrir orð hæstv. ráðherra finnst mér mjög óljóst hvenær barnafjölskyldur geti búist við því að það komist til framkvæmda sem Framsfl. lofaði í síðustu kosningum og í hvaða formi það verður. Það er mjög óljóst. En alla vega er ljóst að þetta er mál sem ríkisstjórnin setur ekki í forgang vegna þess að ekkert samkomulag er um málið milli Framsfl. og Sjálfstfl. Það liggur alveg fyrir.

Hæstv. ráðherra var líka ekki mjög skýr í orðum sínum að því er varðaði ónýttan persónuafslátt vegna barna. Ég geri mér alveg grein fyrir og sagði það í máli mínu að það kostaði miklu meira en frumvarpið sem við værum að ræða hér. En þetta er líka aðferð og leið sem á að taka í áföngum, eins og hér er verið að gera, og væri leið til þess að stuðla að því sem ríkisstjórnin segir í sáttmála sínum þ.e. að styrkja stöðu fjölskyldna sem hornstein þjóðfélagsins og treysta samheldni hennar og velferð. Ég get ekki séð að það treysti samheldni hennar og velferð að fækka þeim um 14 þúsund sem geta notið barnabóta, og á sama tíma og við erum að fara þá leið að auka persónuafslátt milli hjóna að fækka þeim um 2 þúsund á næsta ári sem njóta barnabóta. Það er ekki fjölskylduvæn stefna. Hún er fjölskyldufjandsamleg.