Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 17:09:18 (636)

1999-10-18 17:09:18# 125. lþ. 11.6 fundur 17. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 58. mál: #A breytingar á lagaákvæðum er varða húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[17:09]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tveim frv. til laga, annars vegar um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem felur í sér að húsaleigubætur verði skattfrjálsar og hins vegar fylgifrv. Verði fyrrnefnda frv. samþykkt leiðir það til þess að breyta þarf einnig lögum um félagslega aðstoð, lögum um almannatryggingar og lögum um húsaleigubætur. Síðarnefnda frv. er því einungis tæknilegs eðlis sem afleiðing af því ef hv. Alþingi samþykkir frv. um skattfrelsi húsaleigubóta.

Markmið þessa frv. er skýrt. Það er til þess að tryggja að markmiðum laga um húsaleigubætur verði náð sem felur í sér lækkun á húsnæðiskostnaði tekjulágra leigjenda og að draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Til að húsaleigubætur nái tilgangi sínum og lækki húsnæðiskostnað leigjenda er nauðsynlegt að farið verði með slíkar greiðslur eins og vaxtabætur þeirra sem búa í eigin húsnæði. En eins og við þekkjum eru vaxtabætur skattfrjálsar á sama tíma og húsaleigubætur bera skatt.

Ég hef haldið því fram og geri það í greinargerð með frv. og eins þegar ég mælti fyrir þessu á síðasta þingi, en þetta frv. hefur verið flutt á einum tveimur eða þremur þingum, að hér væri um brot á jafnræðisreglu að ræða. Skattalög eiga að vera hlutlaus gagnvart húsnæðiskostnaði. Undir það tekur í rauninni nefnd félmrh. sem fjallaði um reynsluna af húsaleigubótum og skilaði skýrslu til ráðherra. Mig minnir að það hafi verið í lok ársins 1995 eða 1996, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Nefndin leggur til að skattlagningu húsaleigubóta verði aflétt. Markmið laga um húsaleigubætur er að niðurgreiða húsnæðiskostnað hjá tekjulágum einstaklingum til samræmis við vaxtabætur sem greiddar eru íbúðareigendum. Húsaleigubótum er ætlað að jafna húsnæðiskostnað leigjenda og draga úr þeim aðstöðumun sem ríkt hefur með tilliti til þess hvort um er að ræða eigendur eða leigjendur að íbúðum.

Nefndin telur skattlagningu húsaleigubóta því vera gróft brot á þeirri grundvallarreglu skattaréttar í jafnræðisreglunni að skattleggja húsaleigubætur á sama tíma og vaxtabætur eru skattfrjálsar.``

Þetta eru orð nefndar hæstv. félmrh. sem tekur undir það sem ég hef haldið fram og kveður fast að orði og segir að skattlagning húsaleigubóta sé gróft brot á þeirri grundvallarreglu skattaréttar í jafnræðisreglunni að skattleggja húsaleigubætur og mun ég fara nokkru nánar út í það.

Í fyrsta lagi, hverjir eru það sem njóta húsaleigubóta? Það er fyrst og fremst lægst launaða fólkið í þjóðfélaginu. Komið hefur fram að nálægt 60% þeirra sem nú fá húsaleigubætur eru atvinnulausir, ellilífeyrisþegar, örorkulífeyrisþegar, námsmenn eða einstæðir foreldrar. Það er athyglisvert að næststærsti hópur þeirra sem fá húsaleigubætur eru t.d. námsmenn og kemur fram í skýrslu Félagsmálastofnunar Reykjavíkur fyrir árið 1998 að námsmenn eru 1.054 af 3.478 sem fengu húsaleigubætur í Reykjavík eða nálægt þriðjungur.

Þá vil ég aðeins fara út í áhrif þess að skattleggja húsaleigubætur vegna þess að skattlagning húsaleigubóta mismunar ekki bara fólki eftir því hvort það er í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði, þ.e. þeir sem eru lægst launaðir og eru í leiguhúsnæði þurfa að borga skatt af húsaleigubótum, heldur skerðir slík skattlagning í ofanálag barnbætur þessa fólks og námslán.

Í greinargerð með frv. kemur fram að þetta hefur áhrif til lækkunar á barnabótum en skerðingahlutfall barnabóta vegna tekna nemur 5% fyrir eitt barn, 9% fyrir tvö börn og 11% ef börnin eru þrjú eða fleiri. Þetta reiknast sem tekjur og skerðir því barnabætur hjá þeim sem fá húsaleigubætur. Það væri fróðlegt að reyna að afla upplýsinga um það hve margir af þeim sem fá húsaleigubætur hafa orðið fyrir skerðingu líka á barnabótum.

Þegar við tölum um námsmenn þurfa þeir í ofanálag að búa við það að námslán þeirra eru skert.

[17:15]

Ég leyfði mér á síðasta þingi að beina því til hæstv. menntmrh. hvort hann sæi ekki ástæðu til þess að bregðast við því að húsaleigubætur skertu námslán. Svo einkennilega vill til að það er alfarið á valdi stjórnar Lánasjóðs ísl. námsmanna hvort húsaleigubæturnar skerða námslánin eða ekki. Lögin framselja stjórn LÍN vald til að ákveða fjárhæð námslána og úthlutunarreglur, þar með taldar reglur um hvað telja skuli til tekna við útreikning námslána. Tekjur, eins og þær eru skilgreindar af stjórn sjóðsins, koma til frádráttar við útreikning á námslánum.

Þarna hefur stjórn LÍN ákveðið að húsaleigubætur skuli teljast til tekna. Samkvæmt úthlutunarreglum koma húsaleigubætur m.a. til frádráttar af námslánum. Ég get tekið sem dæmi um þessi áhrif útreikning sem ég hef undir höndum um raunverulegt dæmi hjá námsmanni. Hann borgaði tæplega 30 þús. kr. í húsaleigu og er með tæpar 13 þús. kr. í húsaleigubætur. Ef þessi námsmaður vinnur sér inn 185 þús. kr. yfir árið er skerðing á heildarláni yfir skólaárið vegna húsaleigubóta rúmar 76 þús. kr. Þarna er verið að mismuna námsmanni eftir því hvort hann er í leiguhúsnæði eða á eigið húsnæði. Ef hann á eigið húsnæði og fær vaxtabætur þá skerðir það ekki námslánin en húsaleigubætur skerða námslánin.

Hver er afstaða hæstv. fjmrh. til slíkrar mismununar? Við getum einangrað þetta ákveðna mál, námslánin sem er í höndum stjórnar LÍN að breyta. Það verður samt fróðlegt að vita afstöðu hæstv. ráðherra til þess.

Ljóst er að eftir að sveitarfélögin breyttu því að niðurgreiða leiguíbúðir og færa leiguna undir kostnaðarleigu, þá skapaðist ákveðið bil þar á milli þannig að fólk þurfti að greiða hærri húsaleigu sem var ekki brúuð af húsaleigubótum. Munurinn var það mikill. Ég fór yfir það á síðasta þingi og ætla ekki að gera það neitt ítarlegar hér en þar gat munað kannski 5--6 þús. kr. á mánuði. Láglaunafólk með 60--80 þús. kr. munar um það.

Ég hef talið upp fjórar meginástæður fyrir því að þessi leið verði farin. Í fyrsta lagi eiga skattalögin að vera hlutlaus gagnvart húsnæðiskostnaði. Við eigum að líta á aðstoð samfélagsins við einstaklinga og fjölskyldur til að koma yfir sig þaki, hvort sem er með húsaleigubótum eða vaxtabótum og fara eins með það í skattalegu tilliti. Það er fyrsta ástæðan. Það er brot á jafnræðisreglunni að gera annað.

Í annan stað lækkar þetta barnabætur og skerðir þær. Í þriðja lagi skerðir þetta námslánin og í fjórða lagi, vegna þeirra breytinga sem sveitarfélögin gerðu á niðurgreiðslu á leigu, getur skapast ákveðin mismunun þarna á milli, þ.e. að húsaleigubæturnar bæti það ekki nákvæmlega að hafa farið úr niðurgreiðslunni yfir í húsaleigubætur til þess að greiða niður leiguna. Að vísu veit ég að Reykjavíkurborg hefur reynt að mæta þessu, að ég held, með því að hækka fjárhagsaðstoð til þessara einstaklinga.

Ég man eftir því að ég og hæstv. ráðherra ræddum þetta nokkuð þegar ríkisstjórnin var að fara út í að loka félagslega húsnæðiskerfinu og breyta niðurgreiðsluforminu þannig að vaxtabætur væru greiddar á þriggja mánaða fresti. Þá kom fram sú afstaða hæstv. ráðherra að hann teldi ekki rétt að fara þá leið að hafa húsaleigubætur skattfrjálsar. Hann notaði þau rök að bætur utan skattkerfisins ætti að skattleggja eins og húsaleigubætur en ef það væri innan skattkerfis eins og vaxtabætur þá ætti ekki að skattleggja það. Mér finnast það, herra forseti, heldur rýr rök miðað við þau sem ég hef teflt fram.

Ég get líka nefnt fjárhagsstyrki sveitarfélaga. Mér finnst alveg út úr kortinu þegar veita þarf fjárhagsaðstoð, þegar fólk nær ekki endum saman og sveitarfélögin þurfa samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga að greiða þessu fólki fjárhagsstyrki, að þá þurfi skattakrumla ríkisins að fara í þá fjárhagsaðstoð þannig að úr verður vítahringur. Fólk fær fjárhagsstyrk frá sveitarfélaginu en þarf að borga skatta af því og leitar þá aftur til sveitarfélaganna til að geta borgað skattana. Mér finnst allt mæla með því að afnema skattlagningu á húsaleigubótum og einnig að hætta skattlagningu á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.

Nú getum við spurt: Erum við að ræða um einhverjar stórar fjárhæðir í þessu sambandi? Nei, við erum ekki að ræða um stórar fjárhæðir í þessu sambandi. Samkvæmt því sem fram kemur í frv. námu greiðslur húsaleigubóta á árinu 1997 321 millj. kr. Að teknu tilliti til þess að ýmsir geta nýtt sér persónuafslátt til greiðslu skatta af húsaleigubótum má ætla að tekjutap ríkissjóðs verði um 100 millj. á ári nái frv. þetta fram að ganga. Það er sama fjárhæð og við ræddum áðan um að ganga eigi til að stíga skref í átt að því að persónuafsláttur milli hjóna verði að fullu millifæranlegur. Þessi fjárhæð yrði sennilega aðeins hærri af því að nú er árið 1999 en á árinu 1998 voru húsaleigubæturnar 339 millj. á móti 321 millj. 1997. Þá er ágætt að geta þess í leiðinni að framlag ríkissjóðs til húsaleigubóta í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er innan við 300 millj., var 285 millj. á þessu ári að mig minnir og hækkar um 5--8 millj. á næsta ári. Við erum því ekki að ræða um stórar fjárhæðir heldur um ákveðið prinsippmál.

Mér finnst, herra forseti, að hæstv. fjmrh. þurfi að tefla fram gildari rökum en hann hefur gert. Það má vel vera og ég mun virða það ef hæstv. ráðherra er þeirrar skoðunar að þetta séu nægjanlega góð rök fyrir að skattleggja húsaleigubætur en það er fjarri því að ég sé sammála hæstv. ráðherra í því efni.

Ég þarf ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta frv. Ég hef rætt þetta áður og þingmenn þekkja afstöðu mína til þess. Þó verður ekki hjá því komist, herra forseti, í umræðu um húsaleigubætur sem tengjast stöðu leigjenda og þörfinni fyrir leiguhúsnæði, að ræða upplýsingar sem komu hér fram fyrir nokkrum dögum þegar ég gat því miður ekki verið viðstödd. Þær komu fram í svari hæstv. félmrh. við fyrirspurn hv. þm. Ögmundar Jónassonar um þörfina á leiguhúsnæði. Ef við höfum takmarkað leiguhúsnæði, sem við vissulega höfum, þá þarf fólk að sækja meira út á almenna markaðinn í leiguhúsnæði þar. Það kallar á meiri húsaleigubætur. Hæstv. ráðherra upplýsti í þeirri umræðu að Íbúðalánasjóður hefði lofað lánum til 476 íbúða. Hann nefndi að leiguíbúðaumsóknir til Íbúðalánasjóðs frá 14 sveitarfélögum væru samtals 272 íbúðir og frá 11 félagasamtökum 296 íbúðir. Í beinu framhaldi sagði hann að Íbúðalánasjóður hefði lofað 476 íbúðum. Síðan sagði ráðherra, svo ég vitni orðrétt í ræðu hæstv. félmrh., með leyfi forseta:

,,Ég skipaði í fyrra nefnd til að gera úttekt á leigumarkaðnum hér á landi og kanna þörf fyrir leiguíbúðir næstu ár í samráði við fulltrúa sveitarfélaga og aðra félagslega byggingaraðila, ASÍ og BSRB. Nefndinni var jafnframt falið að meta nauðsyn þess að gera breytingar á húsaleigulögunum. Gagnasöfnun þeirrar nefndar er lokið. Það má reikna með að í kringum 1.500 fjölskyldur eða einstaklingar óski eftir leiguíbúð og þegar á þessu ári er þriðjungnum af þeirri þörf svarað.``

Ráðherrann var áður búinn að segja að Íbúðalánasjóður hefði lofað lánum til 476 íbúða á þessu ári og þriðjungnum af þörfinni væri svarað en 1.500 fjölskyldur væru núna á biðlista eftir leiguíbúðum. Þetta er bara alrangt og alvarlegt að hæstv. félmrh. skuli setja fram rangar staðhæfingar. Ég fullyrði að þær eru rangar. Mér þykir það miður, herra forseti, að hæstv. félmrh. er ekki viðstaddur þessa umræðu. Í gögnum mínum eru allt aðrar tölur sem ég vil fara yfir hér. Þar eru staðreyndir málsins.

Hæstv. ráðherra nefndi einnig og það er ágætt að geta þess að á árunum 1991--1997 hefði að meðaltali verið úthlutað lánum til 270 leiguíbúða. Þetta er líka rangt hjá hæstv. ráðherra. Hann var þá að gera samanburð við árin sem ég nefndi, 1991--1997, að þá hefðu lánin einungis verið til 270 leiguíbúða en núna á þessu ári væru það 476 og búið væri að fullnægja þriðjungi af þörfinni. Staðreyndin er sú að hæstv. ráðherra blandar mjög mikið tölum. Á þessu ári hefur einungis verið lánað til 120 leiguíbúða með 1% vöxtum. En aftur á móti hefur verið lánað til á annað hundrað íbúða á 3,2% vöxtum. Þessi lán, sem eru eitthvað vel á annað hundrað, hafa að mestu gengið til félagasamtaka, þar á meðal til námsmanna og stúdenta. Leigan hjá þeim hefur þannig hækkað mjög mikið. Við erum að bera saman ólíkar tölur þegar við erum að tala um leiguna með 1% vöxtum eða leigu með 3,2% vöxtum.

Ég minni á að þegar félagslega kerfið var við lýði, áður en því var lokað um síðustu áramót, þá voru vextir þar 2,4% fyrir eignaríbúð. Þessu til viðbótar, til að fá töluna 476, telur ráðherrann einnig til að ég held 150--180 íbúðir af þessum 476 sem eiga að koma í gegnum innlausn sveitarfélaga á endursöluíbúðum og yrði hugsanlega breytt í leiguíbúðir en ekkert liggur fyrir um. Þær eru með 2,4% vöxtum. Ráðherrann hefur því farið með rangt mál úr þessum ræðustól. Það verður að kalla eftir því með einum eða öðrum hætti að ráðherrann svari fyrir þær tölur sem hann nefndi.

Ef við tökum árin 1990--1997, þar sem ráðherra nefndi bara 270 íbúðir á ári, þá voru það leiguíbúðir með 1% vöxtum sem fóru niður í 29 íbúðir á árinu 1997. Ef ég tæki endursöluíbúðirnar með því eins og hæstv. ráðherra gerði þá voru þær á bilinu 500--800 á þessu tímabili og flestar á árinu 1991, þá voru nýjar íbúðir um 800. Þetta er auðvitað ekki í fyrsta skiptið sem ráðherrann hefur farið með rangt mál í ræðustól. Í því sambandi vil ég minna á að það þurfti að fara með svör sem hann gaf þinginu um húsnæðismálin, af því að svör Húsnæðisstofnunar hentuðu ráðherranum ekki, alla leið til Ríkisendurskoðunar til þess að fá hrakta vitleysuna úr hæstv. félmrh.

[17:30]

Þetta fannst mér nauðsynlegt að kæmi hér fram og það sem ekki hefur farið hátt að hæstv. ráðherra hefur hækkað vextina. Hæstv. félmrh. hefur hækkað vextina upp í 3,2% og af viðbótarlánunum 4,38%, ef ég man rétt. Þetta segir auðvitað mikið til sín í greiðslubyrðinni. Ég ætla að minna á það líka að ég sé ekki betur á fjárlögunum en að verið sé að lækka framlögin. Ég spyr hæstv. fjmrh. um það að verið sé að lækka framlögin til niðurgreiðslu á leiguíbúð eða félagsleglegum íbúðum frá síðasta ári. Mig minnir að ekki séu nema 100 milljónir á fjárlögum næsta árs en hafi verið 180 milljónir á þessu ári. Hvað segir það okkur? Ef við erum að lækka framlögin þá erum við að hverfa algjörlega út úr niðurgreiddum vöxtum á leiguíbúðum. Þá hljóta að vera enn færri íbúðir á næsta ári sem hægt er að úthluta með 1% vöxtum. Ég spyr ráðherrann um hvað það þýðir að lækka framlögin úr 180 milljónum í 100 milljónir á næsta ári. Allt hefur þetta áhrif á húsaleigumarkaðinn, framboð á leiguhúsnæði og hvort fólk sé orðið ofurselt almenna markaðnum þar sem leigan hefur hækkað um 50--80% og að það skuli vera þannig í þessu þjóðfélagi sem kennir sig við velmegun að láglaunafólk þurfi að borga fyrir tveggja til þriggja herbergja íbúð kannski 60--70 þús. kr. Það er eitthvað að í slíku þjóðfélagi þegar staðan þannig. Ég sé ekki betur en að hæstv. ríkisstjórn sé að hverfa enn fjær því að láglaunafólk geti lifað sómasamlegu lífi og komið sér þaki yfir höfuðið.

Ég vil líka nefna það af því hæstv. ráðherra félagsmála nefndi að það væru 1.500 manns ... (Gripið fram í.) Ég spyr, er hæstv. félmrh. í húsinu?

(Forseti (GÁS): Hæstv. ráðherra er ekki í húsinu.)

Hæstv. ráðherra nefndi að niðurstaðan úr nefnd, sem m.a. ASÍ og BSRB ættu aðild að, væri sú að 1.500 manns biðu en ég tel að talan sé miklu hærri. Miðað við það sem ég hef verið að kanna hjá námsmönnum, hjá sveitarfélögum, hjá Örykjabandalaginu, held ég að þeir séu miklu nær 2.000 sem eru á biðlista. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að hæstv. ráðherra félagsmála geri þessa skýrslu opinbera. Mig minnir að nefndarstarfið hafi verið sett af stað í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögunum um Íbúðalánasjóðinn um að þörfin fyrir leiguhúsnæði yrði könnuð í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Ég sé ekki betur í svari hæstv. félmrh. til hv. þm. Ögmundar Jónassonar en að hann sé að vitna í niðurstöðu nefndarinnar þar sem hann nefnir að 1.500 fjölskyldur séu í þörf fyrir leiguíbúðir en ég tel að talan sé miklu nær 2.000. Auðvitað er fjarstæða, herra forseti, að ráðherrann komist upp með að segja að þegar á þessu ári sé búið að uppfylla þriðjunginn af þessari þörf sem þýðir að það séu ekki nema 1.000 manns á biðlista vegna þess að staðreyndirnar tala allt öðru máli.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa mál mitt lengra. Ég hef beint ákveðnum spurningum til hæstv. fjmrh. sem ég þakka fyrir að hefur setið undir umræðunni og geri mér vonir mér um að hann blandi sér í í umræðuna og svari þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hans.