Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 17:50:55 (642)

1999-10-18 17:50:55# 125. lþ. 11.6 fundur 17. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 58. mál: #A breytingar á lagaákvæðum er varða húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[17:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég þekki ekki þessa skýrslu en mér er til efs að margir sérfróðir menn um skatta hafi setið í þeirri nefnd sem hana samdi. Ég skal líka viðurkenna að ég þekki ekki nægilega vel hinar norrænu reglur um skattlagningu eða skattfrelsi húsaleigubóta. En eftir stendur það sem ég sagði áðan að þegar þetta kerfið var tekið upp þá vissu menn að þetta yrði skattskylt og bæturnar voru ákveðnar með tilliti til þess, sem sagt hærri en ella hefði verið. Svo mega menn ekki gleyma því, eins og ég hef getið um, að margir geta notið góðs af húsaleigubótum sem seinna munu nota sér vaxtabótakerfið. Ég veit ekki betur en til að mynda stúdentar á hjónagörðum og víðar geti hagnýtt sér húsaleigubótakerfið meðan þeir búa þar. Vonandi mun þeim flestum auðnast að geta fjárfest í eigin húsnæði þegar fram líða stundir. Þetta er ekki staðnað kerfi. Fólk er ekki fast á einum stað í kerfinu. En mér finnst hv. þm. hafa dálitla tilhneigingu til þess að gera því skóna að ákveðnir hópar fólks séu fastir í einhverjum gildrum í þjóðfélaginu og þá finnst mér að við eigum að hjálpa fólki að komast upp úr slíkum gildrum, veita því til að mynda fjárfestingarstyrki sem vaxtabæturnar auðvitað eru ef grundvöllur er fyrir því, gera því fólki kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið en ekki að festa það í aðstöðu sem það vill sjálft komast út úr.