Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 17:52:54 (643)

1999-10-18 17:52:54# 125. lþ. 11.6 fundur 17. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 58. mál: #A breytingar á lagaákvæðum er varða húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., MF
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta hefur um margt verið fróðleg umræða, eins og hún reyndar var þegar málið var lagt fram síðast, af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá komu einmitt fram þau rök að sveitarfélögin töpuðu tekjum ef hætt yrði við að skattleggja húsaleigubæturnar. Nú brá hins vegar svo við að í umsögnum sem efh.- og viðskn. Alþingis fékk um málið --- það voru 14 umsagnir eins og fram kemur í greinargerðinni --- voru Samband íslenskra sveitarfélaga í heild sinni, Akureyrarbær, Leigjendasamtökin og Reykjavíkurborg, því sammála að það ætti að hætta skattlagningu á húsaleigubæturnar. Við gerum okkur öll grein fyrir því að fjárhagur margra stærri sveitarfélaganna er mjög bágborinn, og þeirra minni líka, m.a. vegna þess að þau hafa tekið að sér aukin verkefni frá ríki, en tekjustofnarnir hafa ekki fylgt með. Það þarf að fara fram heildarendurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga og skiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga og mjög nauðsynlegt að það gerist sem allra fyrst.

Hækkandi verð á húsaleigumarkaði, sérstaklega í Reykjavík, sem er tilkomið m.a. vegna hins mikla fólksflótta af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið þar sem þörfin fyrir húsnæði hefur aukist gífurlega, og einnig breytinganna sem gerðar voru á húsnæðiskerfinu fyrir ekki löngu síðan. Þetta tvennt hefur áhrif á leiguverð og hefur haft sitt að segja fyrir þá sem eru á leigumarkaðnum, þ.e. verðið hefur hækkað gífurlega og þörfin fyrir húsaleigubæturnar er meiri núna en hún hefur verið nokkru sinni áður, ekki síður þá sem eru bara tímabundið á þessum markaði eins og t.d. námsmenn sem dvelja tímabundið í Reykjavík eða í þeim sveitarfélögum þar sem húsaleigubætur eru greiddar.

Það er mjög sérkennileg staða ef tekið er dæmi af ungum hjónum með tvö börn sem búa í 40--50 km fjarlægð frá Reykjavík og annað þeirra stundar nám hér við háskóla, og farið að skoða leigumarkaðinn. Þá kemur það þannig út að það er ódýrara fyrir viðkomandi námsmann að keyra á hverjum degi til Reykjavíkur, meira að segja á þessu dýra bensíni sem við búum við, heldur en að flytja til Reykjavíkur með fjölskylduna. Það er ódýrara að keyra til Reykjavíkur á hverjum degi og leigja úti á landi í litlu þorpi. Samanlagt kostar þetta minna en að leigja þriggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu. Húsaleigubætur námsmanna skerða námslánin. Hins vegar skerðast ekki námslánin eins og hér hefur komið fram hjá þeim sem eru það vel settir eða eiga það sterka að að þeir geta keypt sér húsnæði og njóta vaxtabóta á meðan á námi stendur. Mér finnst ekki síður ástæða til að huga að þessu unga fólki sem tímabundið er í leiguhúsnæði en þeim sem eru í leiguhúsnæði um lengri tíma vegna þess að þetta er liður í því að aðstoða ungt fólk við að byggja upp sitt líf og koma undir sig fótunum. Að stórum hluta eru á leigumarkaðnum ungar fjölskyldur sem þurfa að fá húsaleigubætur, fólk sem ýmist er að hefja búskap á höfuðborgarsvæðinu þar sem leiga er langdýrust og kemur verst niður á þeim hópu eða einstæðum foreldrum. Að langstærstum hluta eru einstæðir foreldrar á leigumarkaði en ekki í eigin húsnæði. Einstæðir foreldrar hafa þyngstu framfærslubyrðina, minnstar tekjurnar samkvæmt skoðanakönnunum og eru í leiguhúsnæði. Einstæðir foreldrar koma ekki til með að njóta þeirra ráðstafana sem hér var verið að ræða rétt áðan, þ.e. millifæranlegs persónuafsláttar vegna þess að ekki er gert ráð fyrir að einstæðir foreldrar geti nýtt ónýttan persónuafslátt barna. Þar af leiðandi eru kjör þessa hóps yfirleitt mjög erfið og hafa versnað til muna við það að húsaleigan hefur hækkað eins og raun ber vitni að undanförnu.

Einhver dæmi eru um það að við þingmenn höfum fengið til okkar í viðtöl fólk sem búið er að segja upp húsnæði sem áður var á viðráðanlegu verði en búið er að segja því upp vegna þess að markaðurinn býður allt önnur kjör en samið var um fyrir ári síðan. Fólk sem hefur haft á leigu þriggja herbergja íbúðir og borgað fyrir þær 30--45 þús. kr. eftir því hvar þær eru staðsettar í Reykjavík, býr við það núna að fá uppsagnarbréf þar sem það er alveg ljóst að eigandi íbúðarinnar getur leigt hana aftur á að lágmarki 70--80 þús. kr. Þetta er sá raunveruleiki sem við búum við í dag. Það er veruleg þörf á því að breyta lögum sem lúta að skattlagningu húsaleigubótanna, ekki síst í ljósi þess að það er láglaunafólkið sem fyrst og fremst hefur notið þessara húsaleigubóta og að félagslegum úrræðum hefur fækkað. Vextirnir hafa verið hækkaðir og láglaunafólk, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi áðan, þ.e. fólk sem býr við taxtalaunin og er vissulega töluverður hópur í þjóðfélaginu, hefur ekki notið þess launaskriðs sem verið hefur eða þess góðæris sem engum dettur í hug að mæla á móti að átt hafi sér stað. Engu að síður búa mjög stórir hópar við mjög lág laun. Það er þetta fólk sem hefur ekki getað fjárfest í húsnæði, er því á leigumarkaðnum og þarf á þessum bótum að halda, nú frekar enn nokkru sinni áður.

Ég tek undir það sjónarmið sem þarna kemur fram að það er eðlilegt að húsaleigubæturnar séu ekki skattlagðar og þarf ekki endilega að setja samasemmerki á milli þeirra og annarra félagslegra úrræða eða bótagreiðslna til launafólks. Það hefur ekki verið gert á hinum Norðurlöndunum eins og hér hefur komið fram. En eins og við nefndum í umræðu um millifæranlegan ónýttan persónuafslátt þá held ég að það sé alltaf spurning um forgangsröðun hverjir þurfa mest á aðstoð ríkisins að halda. Ekki síst núna þegar talað er um þörfina á aðhaldi í ríkisrekstri, þá verður forgangsröðin að vera alveg klár. Það er klárlega okkar hlutverk að veita þeim aðstoð sem mest þurfa á henni að halda. Stærsti hópur þeirra sem eru á leigumarkaðnum er fólk sem þarf á aðstoð að halda. Það er láglaunafólk. Það eru námsmenn. Það eru einstæðir foreldrar. Sumir þurfa á þessari aðstoð að halda tímabundið en aðrir um lengri tíma og ég tek heils hugar undir það að ástæða er til að leggja af skattlagningu á húsaleigubæturnar og þó fyrr hefði verið. Þarna er um mjög grófa mismunun að ræða hjá þeim sem setja fjármuni í þak yfir höfuðið, þ.e. milli þeirra sem eru á leigumarkaðinum og hins vegar þeirra sem eru að fara út í að eignast eigið húsnæði, byggja eða kaupa og fá vaxtabæturnar án skattlagningar.