Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 18:01:38 (644)

1999-10-18 18:01:38# 125. lþ. 11.6 fundur 17. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 58. mál: #A breytingar á lagaákvæðum er varða húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[18:01]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það er víst komið að lokum þessarar umræðu. Ég þakka þeim hv. þm. sem tekið hafa þátt í henni og hæstv. ráðherra fyrir að vera viðstaddur umræðuna og taka einnig þátt í henni. Ég tel virðingarvert þegar hæstv. ráðherrar eru viðstaddir umræður um þingmannamál og láta í ljós álit sitt. Ég held að það skerpi lýðræðið og þingræðið og tel það mjög af hinu góða.

Ég sá ástæðu til að segja nokkur orð í lokin af því að ég gat það ekki í stuttum andsvörum við hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra nefndi að þegar húsaleigubótakerfinu var komið á árið 1994 eða 1995, hefði öllum mátt vera ljóst að húsaleigubætur yrðu skattlagðar. Hann nefndi að húsaleigubæturnar hefðu verið hækkaðar sem samsvaraði skattinum. Allt er þetta satt og rétt hjá hæstv. ráðherra. Ég sem var félmrh. á þeim tíma vil hins vegar láta koma fram hver skoðun mín var á þeim tíma.

Ég var mjög ósátt við það að húsaleigubætur væru skattlagðar en það var eina leiðin til þess að koma málinu í gegnum þingið með samstarfsflokki okkar sem var þá Sjálfstfl. Ég taldi þó þess virði að stíga þetta skref, að koma á húsaleigubótum þó að þær væru skattlagðar með þá von í brjósti að hægt yrði að leiðrétta það síðar.

Síðar hafa aðstæður einnig breyst. Það að húsaleigubæturnar hækkuðu á sínum tíma var í samræmi við samkomulag milli mín og þáv. hæstv. fjmrh., að hækka húsaleigubæturnar sem áformaðar voru sem samsvaraði skattlagningunni, sem auðvitað kom til góða þeim sem voru undir skattleysismörkum á þeim tíma. Nú hafa aðstæður breyst. Húsaleiga hefur hækkað verulega eins og við höfum farið í gegnum. Það kallar þá á hærri húsaleigubætur. Einnig hafa mörg sveitarfélög farið út í að hætta niðurgreiðslu á leiguíbúðum og farið út í kostnaðarleigu. Húsaleigubæturnar hafa ekki staðið undir þeirri breytingu í niðurgreiðsluformi. Það eru því ekki rök lengur að á sínum tíma, árið 1994, hafi húsaleigubætur verið hækkaðar sem nemur skattlagningunni. Þetta vildi ég láta koma í ljós.

Hæstv. ráðherra nefndi líka að aðstæður breyttust hjá fólki og ég væri kannski of föst í því að aðstæður gætu ekki breyst. Auðvitað er það satt og rétt að sem betur fer breytast aðstæður fólks. Margir hverjir þurfa einungis að vera tímabundið á leigumarkaðnum og geta farið út í það að eignast sitt eigið húsnæði. En staða margra er bara með þeim hætti að það er og verður bundið við leigumarkaðinn vegna lágra launa. Hæstv. ráðherra nefndi sérstaklega námsmenn og sagði að við ættum þá að fara út í að hjálpa t.d. námsmönnum og öðrum með fjárfestingarstyrkjum, þá verð ég að láta í ljós þá skoðun mína að mér finnst nokkuð stangast á hér. Ég nefndi það að ríkisstjórnin hefur á þessu ári, þó að það hafi ekki farið mjög hátt, farið út í vaxtahækkun á leiguíbúðum. Jafnvel á kreppuárunum 1987--1994 eða 1995, þó að við hefðum þá verið tilneydd til að fara út í vaxtahækkanir á húsnæðislánum eins og hjá Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna, var ávallt passað upp á að hækka ekki vexti á leiguíbúðum sem voru 1%.

Á þessu ári erum við allt í einu farin að veita lán til leiguíbúða að stórum hluta með vöxtum sem eru 2,4% og 3,2%. Á hverjum hefur þetta bitnað? Ekki síst á félagasamtökum eins og samtökum námsmanna sem hafa verið að byggja leiguíbúðir til hagsbóta fyrir námsmenn á, 1% vöxtum. Ég vil nefna það hér að á árinu 1998 fékk Félagsstofnun stúdenta úthlutað 22 íbúðum fyrir námsmenn. 17 þeirra voru með 3,2% vöxtum en einungis fimm með 1% vöxtum. Það segir auðvitað til sín í greiðslubyrðinni hjá námsmönnum og gerir þeim síður kleift að koma sér upp eigin íbúð þegar þeir þurfa að bera svo háa vexti. Þetta hefur verulega mikið að segja, þessi vaxtahækkun úr 1% í 3,2%.

Það virðist enn stefna í að þrengja eigi að félagasamtökum eins og Félagsstofnun stúdenta, Öryrkjabandalagið, Þroskahjálp og fleiri sem hafa létt verulega á ríkisvaldinu og sveitarfélögunum og komið upp íbúðum fyrir skjólstæðinga sína og félagsmenn, á þessu ári og því næsta. Af hverju segi ég það? Ég nefni t.d. að á þessu ári voru veitt lán --- af því að nú er ég með tölurnar fyrir framan mig sem ég hafði ekki nákvæmlega áðan --- með 1% til 121 leiguíbúðar, þar af til 76 sveitarfélaga og 40 félagasamtaka. Með 3,2% vöxtum voru veitt 163 lán, þar af aðeins 11 til sveitarfélaga en 151 til félagasamtaka. Hærri vextirnir, þessir 3,2% vextir, einhvern veginn er stýringin hjá Íbúðarlánasjóðnum þannig að hærri vextir, dýrari lánum er stýrt til félagasamtakanna sem hafa þar með þyngri greiðslubyrði.

Mér fannst nauðsynlegt að láta þetta koma fram í lokin um leið og ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram.