Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 18:24:20 (646)

1999-10-18 18:24:20# 125. lþ. 11.9 fundur 56. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[18:24]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu þáltill. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleirum um endurskoðun á greiðslum hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu með það að markmiði að jafnræðis sé gætt í slíkum greiðslum milli kynja og er vísað til jafnréttislaga í því sambandi.

Kannanir undanfarinna ára hafa ítrekað staðfest rótgróinn launamun kynjanna. Í launakönnun BHM sem gerð var 1988 kom fram að fullvinnandi háskólamenntaðar konur höfðu um 75% af launum fullvinnandi karla á sama menntunarstigi. Í könnun Jafnréttisráðs frá 1995 kom fram töluverður munur á launum karla og kvenna. Konur voru með 78% af hreinum dagvinnulaunum karla en þegar tekið var tillit til aukagreiðslna voru laun kvenna 70% af launum karla.

Sama athugun Jafnréttisráðs leiddi í ljós að raunverulegur launamunur karla og kvenna þegar tekið var tillit til vinnutíma, starfsaldurs, menntunar og vinnuframlags sem eingöngu væri hægt að skýra sem kynjamun væri um 11%.

Í nýlegri athugun Verslunarmannafélags Reykjavíkur kemur fram, eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, að meðallaun karla eru að meðaltali um 30% hærri en meðallaun allra félagsmanna VR. Kynbundinn launamunur, þ.e. raunverulegur launamunur kynjanna hjá VR þegar tekið hefur verið tillit til menntunar, starfsstéttar, vinnutíma, starfsaldurs og aldurs er um 18%. Gróflega má áætla út frá þessu að ef farið væri eftir jafnréttislögum og konum væru greidd sömu laun og karlar, þá má álykta sem svo að konur vinna tvo mánuði á ári frítt fyrir vinnuveitendur sína og það er umhugsunarefni. Það kemur einnig fram í athugun VR að launamunur kynjanna hefur heldur aukist undanfarið.

Í þáltill. sem hér liggur fyrir er óskað eftir að fram fari heildarendurskoðun á greiðslum hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu. Það er kunnara en frá þurfi að segja að launamunur kynjanna í starfi hjá hinu opinbera hefur fyrst og fremst legið í því að karlar hafa fremur en konur fengið aukagreiðslur í formi óunninnar yfirvinnu, bónusgreiðslna og bílastyrkja. Í því sambandi má benda á að óverulegur munur var á grunnlaunum karla og kvenna starfandi hjá hinu opinbera á taxta háskólamanna á árinu 1997 áður en hugmyndin um nýtt gagnsætt launakerfi varð að veruleika með samningum milli aðila. Launamunur kynjanna birtist hins vegar við samanburð á heildarlaunum háskólamenntaðra karla og kvenna þar sem karlar höfðu margra prósenta, jafnvel tuga prósenta hærri laun en háskólamenntaðar konur með sambærilega menntun og ábyrgð. Launamunurinn fólst í óunninni yfirvinnu, bónugreiðslum, bifreiðastyrkjum og öðrum hlunnindum. Því var það mikið fagnaðarefni þegar ákvörðun var tekin um að taka upp nýtt launakerfi hjá ríkinu í kjarasamningum við ýmis stéttarfélög opinberra starfsmanna á árinu 1997, þar sem eitt af meginmarkmiðum kerfisins var að gera launamyndun gagnsæja sem þýddi að sá hluti launa sem var neðan jarðar var færður upp á yfirborðið. Það var og er að mínu mati forsenda þess að hægt sé að taka á launamun karla og kvenna í opinberri þjónustu.

Í tengslum við kjarasamninga við háskólamenn á árinu 1997 gáfu ríki og Reykjavíkurborg út sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kom að það væri yfirlýst stefna þessara aðila að jafna þann launamun karla og kvenna sem ekki er hægt að útskýra nema á grundvelli kyns. Jafnframt var því lýst yfir að með nýju launakerfi gæfist tækifæri til að vinna að þeim markmiðum. Með það í huga mundi fjmrh. og Reykjavíkurborg láta gera úttekt á áhrifum nýs launakerfis á launamun karla og kvenna starfandi hjá stofnunum sínum á samningstímabilinu. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar um að jafna launamun kynjanna var sérstaklega áréttuð af forsrh. á nýafstaðinni ráðstefnu um konur og lýðræði, eins og kom fram áðan.

Enn sem komið er er ekki hægt að draga ályktun af tölum kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna hvort breyting hafi orðið á launamun kynjanna með nýju launakerfi þrátt fyrir að launasamsetning opinberra starfsmanna hafi tekið verulegum breytingum og mikill hluti af óunninni yfirvinnu hafi verið tekinn inn í laun. En þetta hefur náttúrlega átt sérstaklega við um karlahópana þar sem laun umfram grunnlaun tíðkuðust eins og ég sagði áðan, en margir hópar, sérstaklega kvennahópar, hafa þurft að hafa mikið fyrir að fá þann mun leiðréttan eins og kunnugt er.

Stéttarfélög sem fóru þá leið á sínum tíma tóku mikla áhættu því að reynsla annarra þjóða, t.d. Svíþjóðar, er að launamunur kynjanna eykst þegar tekið er upp launakerfi sem byggir á að ákvarðanir um laun taki mið af menntun, sérhæfni reynslu, ábyrgð og árangri. Því er afar mikilvægt að hefja undirbúning að þeirri úttekt sem fjmrh. og Reykjavíkurborg gáfu yfirlýsingu um í tengslum við kjarasamninga 1997 því aðeins er rétt um eitt ár eftir af samningstímabili þessara félaga.

Oft hefur því verið haldið fram að ein meginástæða launamunar karla og kvenna sé að konur geri minni launakröfur en karlar við ráðningu í starf. Þetta sjónarmið er m.a. staðfest í auglýsingum VR sem hafa birtst í sjónvarpinu undanfarið og hafa vakið mikla athygli. Ég tel að þessar auglýsingar geri mikið gagn til að vekja konur upp og kenni þeim að gera meiri kröfur sér til handa. Því má hins vegar ekki gleyma að það er launagreiðandinn en ekki starfsmaðurinn sem hefur allar upplýsingar um laun starfsmanna og það er launagreiðandinn sem ber fulla ábyrgð ef hann brýtur jafnréttislög vísvitandi, en þar segir skýrum orðum að konum og körlum skuli greidd jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Ég tek því undir þá þáltill. sem hér er lögð fram og þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og meðflutningsmönnum hennar frumkvæðið og hvet til þess að sú heildarendurskoðun sem hér er óskað eftir verði hluti af þeirri könnun sem ég nefndi áðan og í samræmi við yfirlýsingar þar um.