Greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu

Mánudaginn 18. október 1999, kl. 18:43:06 (649)

1999-10-18 18:43:06# 125. lþ. 11.9 fundur 56. mál: #A greiðslur hlunninda og bifreiðastyrkja í ríkiskerfinu# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 125. lþ.

[18:43]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svörin. Ég vil alveg gulltryggja að hv. þm. hafi ekki misskilið mig þegar ég var að ræða um það að ég teldi mjög sérkennilegt að þegar við stæðum í kjarasamningum og verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins væri einungis verið að semja fyrir láglaunafólkið vegna þess að þegar við værum í kjarasamningum á auðvitað að vera að semja um hin raunverulegu kjör. En við erum bara að semja fyrir lítinn hluta fólks, 5%. Við værum ekki að því ef heildarlaunin væru sýnileg og væru öll uppi á borðinu, þá væru samningarnir ekki með þeim hætti að kjarasamningagerðin snerist bara um það hvort það ætti að hækka laun láglaunafólksins um 500 kr. eða 1.000 kr. þegar aðrir væru að semja við atvinnurekendur sína um miklu hærri laun. Ef láglaunafólkið fær eitthvað meira en fimmhundruðkallinn eða þúsundkallinn þá vill það fólk sem er á einstaklingsbundnum samningum halda þeim mismun sem áður var á milli láglaunafólksins og þeirra betur settu. Það er raunverulega það sem ég var að reyna að koma til skila að kjarasamningagerð, sem stendur í marga mánuði, snúist bara um laun og kjör lítils hluta þjóðarinnar. Ef þetta væri raunverulegt og við værum með þetta gagnsætt þá væri þetta auðvitað með öðrum hætti.