Grunnskólar

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 14:30:37 (658)

1999-10-19 14:30:37# 125. lþ. 12.6 fundur 81. mál: #A grunnskólar# (einsetning, samræmd lokapróf) frv. 104/1999, KolH
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breyting á lögum um grunnskóla og sú sem hér stendur á sæti í hv. menntmn. Alþingis og sú sem hér stendur er líka að læra ansi margt í sambandi við störf þingmanna og viða að sér ýmsum fróðleik og þar á meðal í sambandi við menntamál.

Hingað til hef ég fylgst afskaplega vel með í skólamálum, sérstaklega í grunnskólanum, og ég hef fylgst líka með því sem gerist í sölum hins háa Alþingis. Oft finnst mér eins og hér sé talað úr fílabeinsturni og lítil tengsl séu við hið raunverulega líf og það sem á sér stað í alvöru úti í skólum landsins.

Við þekkjum öll til starfa hæstv. menntmrh. Hann er að sönnu dugnaðarforkur, hann hefur tekið vel á ýmsum málum og við höfum virkilega fundið fyrir honum. Hæstv. ráðherra hefur vegið þungt í málaflokknum undanfarin ár og eflaust hefur margt verið vel gert. En það sem hér um ræðir eru samræmd próf og hæstv. ráðherra hefur lagt mikla áherslu á mælanlegan árangur í starfi grunnskólanna. Það er kannski þar sem mér hefur oft fundist á skorta einhvers konar raunveruleikatengingu eða í öllu falli sterkari raunveruleikatengingu. Þau varnaðarorð sem mig langar til að mæla úr þessum ræðustóli núna tengjast veruleikanum sem við blasir í skólastofnununum.

Nú er það svo, hæstv. forseti, að við búum við þann veruleika að allt upp í 40% ungra nemenda, sem eru að hefja nám í grunnskólanum í sex ára deildunum, á við merkjanlega erfiðleika að stríða við að tileinka sér nám og skólastarf. Það er talið að allt upp í 40% í sumum skólum þurfi einhvers konar stuðning og geti ekki tileinkað sér það nám sem er í boði strax í sex ára deild. Þar sem samkeppnisnám tekur strax gildi og það er strax farið að bera á því að stýringin er inn á samkeppnisnám en ekki samvinnunám þá verður vandinn stærri eftir því sem á líður skólagöngu þeirra barna sem eiga í erfiðleikum. Samfara því að samkeppnisnámið er eflt á þennan hátt og vægi þess aukið þá er að mínu mati ekki nóg að gert fyrir þá sem eiga í erfiðleikum. Að mínu mati þarf að koma inn virkilega öflugur stuðningur í skólakerfið til þeirra sem þurfa á sérúrræðum að halda, sérstaklega ef það á að auka svona mikið vægi hinna samræmdu greina.

Þar komum við inn á starfstengdar greinar og listgreinar, listgreinar sem verða aldrei mældar í hinum eiginlegu kvörðum. Starfstengdar greinar og listgreinar geta komið inn í skólakerfið á miklu öflugri hátt strax frá byrjun. Það eru þannig greinar sem hjálpa best þeim sem eiga við námsörðugleika að stríða.

Ég legg því til að hér verði virkilega vel skoðað hvað við getum gert til þess að auka vægi starfstengdra greina og listgreina og auka úrræði fyrir þau börn sem eiga erfitt með að tileinka sér nám á sama tíma og við erum að auka vægi samræmdu greinanna.

Varðandi einsetninguna í skólum landsins, svo ég haldi áfram að tala á sömu nótum og ég byrjaði, herra forseti, finnst mér líka stundum gæta þess að ekki séu nægileg tengsl þeirra sem hér tala við raunveruleikann. Þá vil ég nefna að einsetningin er afskaplega misjöfn milli skóla. Hún er nánast bara í formi gæslu í sumum skólum. Þó að málefni skólanna séu komin til sveitarfélaganna þá þykir mér það enn vera eitthvað sem hinu háa Alþingi kemur við að heilsdagsskólinn verði skóli en ekki bara misgóður stuðningur við heimanám og nánast gæsla. Samhliða umræðum um frv. sem hér liggur fyrir finnst mér þurfa að fara fram gagnger skoðun á því hvernig skólunum hefur hingað til tekist upp í því að efla einsetninguna og gera úr garði þann hluta skóladagsins sem heyrir undir einsetninguna beinlínis, heimanám og gæslu.

Að lokum vil ég segja, herra forseti, að menntamál eru í eðli sínu málaflokkur sem tengist sterkt inn á aðra málaflokka. Þá vil ég nefna sérstaklega heilbrigðismál og félagsmál. Ég sakna þess gjarnan að þeir sem hér tala eða störf Alþingis lýsi því að menn skynji og geri sér góða grein fyrir þeirri tengingu. Mér þætti gott að geta rætt þessi málefni, þ.e. málaflokka, menntamálin, heilbrigðismálin og félagsmálin oftar í meira samhengi þannig að við fyndum betur flæða á milli þessara málaflokka.