Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 14:51:35 (662)

1999-10-19 14:51:35# 125. lþ. 12.7 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[14:51]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, með síðari breytingum.

Í frv. er gert ráð fyrir breytingum á framhaldsskólalögunum sem eru á þessa lund:

1. Kennarar sem ráðnir eru í störf aðstoðarskólameistara fái sambærilegan rétt til leyfis frá kennarastörfum og þeir kennarar sem ráðnir eru í embætti skólameistara.

2. Fornám í framhaldsskólum verði skipulagt innan almennra námsbrauta framhaldsskóla.

3. Menntamálaráðherra verði veitt heimild til þess að ákveða með reglugerð hvaða lokapróf framhaldsskóla skuli vera samræmd.

4. Skipan starfsgreinaráða verði ákveðin með reglugerð, þar með talið hver fjöldi fulltrúa skuli vera í starfsgreinaráðum og hvernig tilnefningum skuli vera háttað. Við skipan starfsgreinaráða verði tekið tillit til hagsmuna þeirra starfsgreina sem ekki njóta þegar fræðslu á framhaldsskólastigi.

5. Lögbundinn frestur til þess að framkvæma framhaldsskólalögin verði framlengdur til þess að undirbúa betur framkvæmd laganna, t.d. framkvæmd samræmdra prófa.

Herra forseti. Þessi ákvæði skýra sig sjálf. Þau eru ekki flókin í sjálfu sér. Það er verið að samræma atriði t.d. varðandi ráðningu aðstoðarskólameistaranna og skilgreina betur inntak hinnar almennu námsbrautar sem kemur í stað fornáms. Það er ástæða til að vekja sérstaka athygli á þessari námsbraut. Það snertir mál sem við ræddum hér undir síðasta dagskrárlið þegar rætt var um grunnskólana og samræmd próf. Þarna er gert ráð fyrir því að sá hluti nemenda sem er mjög óráðinn í hvaða framhaldsnám skuli velja og fullnægir auk þess ekki inntökuskilyrðum á allra námsbrauta framhaldsskóla, fái sérstaka skilgreinda námsbraut á framhaldsskólastigi þar sem haldið verði uppi náms- og starfsráðgjöf. Þar verður einnig stuðlað að því að þessir nemendur finni sér áhugasvið, t.d. á starfsnámsbrautum eða í list- og verknámi eins og hér var hvatt til að gerð yrði í umræðunum áðan, að menn huguðu að þessum nemendum sérstaklega. Ég tel að með breytingunni sem við erum að leggja til á framhaldsskólalögunum sé einmitt komið til móts við þau sjónarmið sem fram komu að þessu leyti hjá hv. þm. hér áðan.

Varðandi lokapróf úr framhaldsskóla, segir í 24. gr. laganna að lokapróf úr framhaldsskóla skuli vera samræmd. Þar er ekki gerður munur á stúdentsprófum eða burtfararprófum af starfsmenntabrautum. Þegar menn setjast yfir frekari umræður eins og fram hefur komið við mótun nýju skólastefnunnar, í því mikla starfi sem fram hefur farið við gerð námskráa í samræmi við hana, sjá menn að æskilegt væri að hafa þessi ákvæði í framhaldsskólalöggjöfinni skýrari. Eins og menn sjá á frv. er gert ráð fyrir því að greina á milli bóknámsbrauta, náms í löggiltum iðngreinum og einnig því að menntmrh. hafi heimild til að ákveða með reglugerð að lokapróf í tilteknum greinum af öðrum námsbrautum skuli samræmd að fenginni umsögn viðkomandi starfgreinaráðs ef um starfsnám er að ræða. Þarna er sem sagt verið að taka mið af sveigjanleikanum á þessu skólastigi markvissar en gert er með núverandi lögum.

Ákvæðið um starfgreinaráðin heimilar menntmrh. að gefa út reglugerð varðandi þessi mikilvægu ráð. Þau eru 14 núna og hefur komið í ljós við framkvæmd ákvæða í lögunum sem um þau fjalla að það mundi auðvelda skipulag á þessu sviði að hafa heimild til útgáfu reglugerðar. Síðan er lagt til að frestir verði lengdir með hliðsjón af því hvernig við hrindum þessum ákvæðum og nýju námskránni í framkvæmd. Ég vil láta þess getið að ég hef falið sérstökum ráðgjafa mínum um framhaldsskólastigið að vinna að tillögum varðandi styttingu framhaldsskólans úr fjórum árum í þrjú. Markmiðið er að menn geti tekið stúdentspróf að loknu þriggja ára námi í framhaldsskóla í samræmi við nýju skólastefnuna en ákveðið var að hrinda fyrst ákvæðum um námskrána í framkvæmd og síðan að taka á þessu viðfangsefni. Vinnan við það er hafin á vegum menntmrn. en þær breytingar verða ekki gerðar nema með samþykki Alþingis þegar þar að kemur.

Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. hv. menntmn.