Framhaldsskólar

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 14:56:46 (663)

1999-10-19 14:56:46# 125. lþ. 12.7 fundur 101. mál: #A framhaldsskólar# (aðlögunartími, fornám, samræmd lokapróf o.fl.) frv. 100/1999, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[14:56]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Málið sem hér um ræðir var tekið á dagskrá með afbrigðum þannig að ekki hefur gefist mikill tími til að skoða það. En eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er hér fyrst og fremst um sjálfsögð atriði að ræða sem ekki ætti að standa mikill pólitískur styr um. Mörg þeirra eru þegar í lögunum um framhaldsskóla og, eins og fram kom í máli ráðherrans, fyrst og fremst um heimild til reglugerðarútgáfu eða nánari útfærslu að ræða. Ég geri ráð fyrir að hv. menntmn. muni grandskoða þetta mál en langar til að spyrja ráðherra, áður en umræðunni lýkur vegna þess sem hann fór hér yfir varðandi frestun á framkvæmd laganna, hvort þessi frestur muni duga til að fatlaðir fái kost á framhaldsnámi eins og aðrir nemendur.

Samkvæmt 19. gr. gildandi laga er gert ráð fyrir því að fötluðum nemendum sé boðið nám, þ.e. kennsla og sérstakur stuðningur í námi á framhaldsskólastigi. Gert er ráð fyrir að þeim sé látin í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur og þeir skuli stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.

Nám fatlaðra nemenda hefur einungis verið til tveggja ára. Ég tek hins vegar eftir því að hér er fyrst og fremst vikið að samræmdum prófum til að rökstyðja frest á framkvæmd framhaldsskólalaganna eða framlengingu hans til að undirbúa betur framkvæmdina. Er hæstv. ráðherra tilbúinn til að segja eitthvað um framhaldsnám fatlaðra? Ég stóð í þeirri meiningu að það búið yrði að lengja það um a.m.k. um eitt ár fyrir skólaárið sem nú er að byrja. Mér skilst að svo verði ekki heldur verði um áframhaldandi frestun að ræða. Er hægt að fá upplýsingar um hvort þetta sé eitt þeirra atriða sem menn ætla sér að ljúka fyrir þann tímafrest sem hér er enn gefinn.

Varðandi reglugerðina um það hvaða lokapróf framhaldsskóla skuli vera samræmd sem fjallað er um í 24. gr. þessara laga þá skil ég ekki alveg, kannski vegna þess að ég hef ekki haft tíma til að kynna mér málið nægjanlega, af hverju breyta þarf 24. gr. á þann veg sem gert er. En eins og ég sagði áðan þá hefur hin pólitíska ákvörðun verið tekin og sjálfsagt að skoða hvort sú breyting sem hér er lögð til reynist nauðsynleg til að ráðherra hafi það svigrúm sem hann þarf til að skipa þessum málum eðlilega.

[15:00]

Að öðru leyti, herra forseti, sýnist mér að hér sé um mál að ræða sem líklegt mátti telja að komi til umfjöllunar þingsins að nýju, samanber starfsgreinaráðin. Ég held að mjög eðlilegt sé að meiri sveigjanleiki þurfi að vera en sá sem lögin gera ráð fyrir. Og sömuleiðis held ég að ástæða sé til að fagna því að fornámið í framhaldsskólanum verði skipulagt innan almennra námsbrauta.

Herra forseti. Ég ætla ekki við 1. umr. að hafa frekari orð um frv. en ítreka það sem ég fór yfir varðandi málefni fatlaðra.