Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:47:54 (670)

1999-10-19 15:47:54# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Ég tek undir það, herra forseti, að ástæðulaust sé að karpa um þessa hluti hér. Ég tel það hins vegar ekki raunhæfa hugmynd að afnema alla skatta á ökutæki eða eldsneyti og taka upp allsherjarumhverfisgjald. Umhverfisskattar eru fyrst og fremst hugsaðir sem gjöld á notkun, á þá sem menga en ekki endilega á þann sem kaupir sér bíl. Það er þá frekar notkunin sem skiptir máli í því sambandi.

Ég tel hins vegar líka að samanburður þingmannsins á vörugjaldi á ökutæki og svo sköttum á bensíni sé út í hött og þá mætti taka hvaða skatt sem er. Hverjir borga hér almennan virðisaukaskatt? Almenningur í landinu. Hverjir eru það? Eru það ekki að stórum hluta líka bíleigendur? Það er ekki hægt að taka skattstofn eins og þennan og leggja inn í málið með þessum hætti. Það er bara allt annað mál. Ég mun koma nánar að því á eftir, virðulegi forseti.