Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:50:07 (672)

1999-10-19 15:50:07# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, Frsm. KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:50]

Frsm. efh.- og viðskn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Um þá brtt. sem hv. þm. mælti fyrir vil ég segja að að hún gengur miklu lengra í þá veru að lækka tekjur ríkissjóðs en frv. sem hér er til afgreiðslu. Fallist hefur verið á það sjónarmið að ekki sé rétt að íþyngja bifreiðaeigendum meira en orðið er og því skuli taka upp fasta krónutölu í gjald í stað ákveðinnar prósentu. Þar skal miðað við þær tekjur sem ríkið hefur haft að þessu að jafnaði á síðustu fimm árum. Á er sett þak miðað við það sem að jafnaði hefur verið. En þarna er líka sett gólf því auðvitað að þarf að tryggja ríkissjóði tekjur þegar bensínverð er lágt. Miðað við þessa afgreiðslu ríkisstjórnarinnar er verið að tryggja ríkissjóði svipaðar tekjur, á meðan þessi regla er í gildi, og hann hefur haft á undanförnum fimm árum.

Hv. þm. kynnir hér tillögu sem er aðallega frábrugðin í því að ríkissjóður á ekki að njóta aukinna tekna þegar verðið er hátt á heimsmarkaði. Hann á hins vegar að gjalda fyrir það þegar verðið er lágt með því að þá á prósentan að gilda. Það er ekki aðeins að munurinn á frv. og tillögu þingmannsins sé ein króna þegar reynir á hámarkið, eða um 200 millj. kr. á ári, heldur er hann meiri þegar verðið er lágt.

Það er dálítið merkilegt þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar skipta hér um plötu eftir því hvaða dag þeir eru í þingsölum. Einn daginn er verið að ræða um þingmál sem lýtur að útgjöldum ríkissjóðs. Þá finnst þeim tillögur stjórnarliða ganga allt of skammt og vilja meiri útgjöld. Næsta dag er verið að ræða um tekjuöflun í ríkissjóð og þá finnst þeim ríkið taka of mikið og mæla fyrir minni tekjum ríkissjóðs. Þetta er auðvitað ekki ábyrgur málflutningur, herra forseti.