Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:53:56 (674)

1999-10-19 15:53:56# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, Frsm. KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:53]

Frsm. efh.- og viðskn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Við þetta er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi höfum við haft þá reglu sem þingmaðurinn talar fyrir. Bifreiðaeigendur hafa notið þess þegar verðið er lágt á heimsmarkaðsverði. Þá hefur útsöluverð bensíns verið lágt vegna þess að við höfum verið með prósentuálagningu? Að sama skapi hafa menn þurft að borga meira þegar heimsmarkaðsverð hefur verið hátt. Prósentuálagning magnar verðsveiflurnar á erlendum mörkuðum. Við erum að hverfa frá því yfir í fasta krónutölu til þess að deyfa sveiflur á erlendum mörkuðum og áhrif þeirra á útsöluverð bensíns innan lands. Það þýðir að við verðum að hafa jafnaðarverð þannig að tekjur ríkissjóðs skerðist ekki verulega frá því sem ella hefði orðið. Annars þurfum við að afla ríkissjóði tekna með öðrum hætti. Það er væntanlega ekki það sem hv. þm. er að tala fyrir.

Svo vil ég benda á það sem fram kom við umfjöllun málsins í efh.- og viðskn. hjá talsmönnum Félags ísl. bifreiðaeigenda, að tekjur ríkissjóðs af umferðinni gera ekki meira en standa undir útgjöldum þjóðfélagsins af umferðinni.