Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 15:56:21 (676)

1999-10-19 15:56:21# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[15:56]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er komin í hóp okkar sem stöðugt bendum á mikla skattheimtu ríkisins. Öðruvísi mér áður brá. Hv. þm. sem sýknt og heilagt hefur viljað auka útgjöld ríkisins, viljað teygja velferðarkerfið út í sérhvert horn samfélagsins er nú búin að snúa við blaðinu og er komin í hóp okkar sem viljum minnka skattheimtu. Hún sagði meira að segja að við værum komin út á ystu nöf skattheimtunnar. Það snerti streng í hjarta mínu og það tók kipp af fögnuði.

En ég er með tvær eða þrjár spurningar. Hvernig samrýmist þessi tillaga hugmyndum Samfylkingarinnar um umhverfisskatta? Mun lækkun á sköttum og ódýrara bensín hvetja fólk til að nota minna bensín og minnka útblástur? Hvað eru umhverfissinnar um allan heim eiginlega að hugsa?

Önnur spurning. Hér er lagt til að skattar verði óbreyttir, þó þannig að þeir verði aldrei hærri en meðaltalið. Það þýðir stórkostlega lækkun á sköttum. Ég er svo sem ánægður með það en ég spyr: Er þetta bara billegt yfirboð?