Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 19. október 1999, kl. 16:08:19 (683)

1999-10-19 16:08:19# 125. lþ. 12.8 fundur 3. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (gjöld af bensíni) frv. 86/1999, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 125. lþ.

[16:08]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ljóst að hv. þm. þekkir ekki forsögu skaðabótalaganna sem hafa verið að þvælast í þingsölum í 4--5 ár m.a. vegna þess að ekki var hægt að fá upplýsingar hjá tryggingafélögunum sjálfum um hvaða áhrif skaðabótalögin hefðu. Á móti kom að tryggingaeftirlitið taldi að þetta ætti ekki að hafa nein áhrif til hækkunar á iðgjöldum og á þeirri forsendu m.a. voru skaðabótalögin samþykkt hér á þingi. Hv. þm. verður að kynna sér staðreyndir málsins áður en hann fer með það upp í stól að ég hafi ekki vitað hvað ég var að samþykkja varðandi skaðabótalögin.

Varðandi það að hér sé um billegt yfirboð að ræða, þá bið ég hv. þm. að kynna sér það líka hvað ríkissjóður hefur verið að hirða til sín mikið í tekjur á þessu ári af bifreiðaeigendum, m.a. þær sem ég nefndi og hæstv. fjmrh. vill helst ekki vita af, t.d. það sem ríkissjóður hefur haft umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir í vörugjöld af innflutningi á bifreiðum. Það eru töluverðir peningar, 1.500--1.600 millj. og miðað við hvað skattakrumla ríkisvaldsins hefur verið hörð gagnvart bifreiðaeigendum tel ég að ríkisstjórnin ætti að geta slakað aðeins á klónni með því að samþykkja þessa tillögu sem þýðir að ríkisvaldið getur ekki ef heimsmarkaðsverð lækkar haft ávinning af því heldur eiga neytendur að hafa það. Tillagan gengur ekki síður út á það, hv. þm.